141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:19]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sennilega skortir mig þekkingu, skynsemi eða orðfærni til þess að útskýra þetta þannig að það skiljist. Ég hélt að þetta væri einfalt og ég var að reyna að nálgast það á eins einfaldan hátt og ég held að sé hægt með því að benda á þá einföldu staðreynd að ríkið lagði fram lágmarksstofnfé á sínum tíma sem var að þessari fjárhæð og það á það fé enn.

Efnahagur bankans varð ekki til fyrr en að loknum samningum og niðurstöðu um það hver legði honum síðan til fullnægjandi eigið fé til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins, og þær voru ríkar, um að það skyldi vera a.m.k. 16%. Þegar það var gert, og þannig var það í öllum tilvikunum, var það gert reikningslega á þeim grunni eins og það hefði orðið frá byrjun og fært aftur til tímans þegar bankinn varð til í október 2008. Í þeim skilningi er alveg ljóst að eignin er sú sem hún varð eftir samningana frá fyrsta degi. Í þeim skilningi átti íslenska ríkið aldrei nema 13% í öðrum bankanum og 5% í hinum vegna þess að 900 millj. kr. framlagið dugði ekki til að mynda stærri hlutdeild í eign bankans en það. Þannig er það.

Um þetta má lesa rækilega í ítarlegri skýrslu sem var reidd fram um þetta mál.