141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:22]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það að koma nýju bönkunum eða nýja bankakerfinu fyrir landið á fót var gríðarlega viðamikil aðgerð og stór. Hún var líka gríðarlega mikilvæg vegna þess að það var öllum ljóst að við kæmumst nú lítið af stað með endurreisn íslensks efnahagslífs fyrr en við hefðum hér starfhæft bankakerfi, starfhæft fjármálakerfi. Þess vegna var mjög mikilvægt að hægt væri að hraða þeirri aðgerð og láta hana ganga eins fljótt og vel fyrir sig og mögulegt var, forðast deilur og dómstólamál og reyna að ná málunum fram með samningum. Það var mat allra þeirra sérfræðinga sem að þessu unnu og þeir voru margir. Þetta var gríðarlega stór og viðamikil aðgerð. Það var keypt mjög dýr og vönduð sérfræðiráðgjöf sem íslenska ríkið studdist við í þessum efnum, eins og fyrirtækið Hawkpoint sem vann með stjórnvöldum að málinu með herskara lögfræðinga og viðskiptafræðinga. Það var reynt að spara ekki til þó að litlir væru nú peningarnir á þessum dögum svo að þetta gæti gengið hratt og vel fyrir sig.

Ég tel að niðurstaðan hafi verið farsæl, þetta hafi gengið vel og að þeir menn sem að þessu unnu aðallega undir forustu Þorsteins Þorsteinssonar, sem var samningastjóri ríkisins í þessu máli, hafi staðið sig afburða vel. Það að koma þessari gríðarlega flóknu aðgerð á og klára hana á 6–9 mánuðum eins og tókst var mikið afrek. Það skipti miklu máli fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs að bankakerfið komst í gang og gat farið að starfa, sinna viðskiptavinum sínum, greiða úr skuldamálum þeirra o.s.frv. Allar tafir sem hefðu orðið á því umfram þær sem þó voru hefðu orðið okkur dýrkeyptar.