141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:26]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Ég var að ljúka lofsorði á gott starf þeirra sem tóku að sér þetta erfiða verkefni. Ég tel að þeir hafi unnið mikið þrekvirki á skömmum tíma og ég tilgreindi og nafngreindi þar sérstaklega einn mann.

Það er engin deila um að það sparaði íslenska ríkinu gríðarlega fjárbindingu og mikinn vaxtakostnað að þurfa ekki að reiða sjálft og eitt fram allt það fé sem hefði þurft til þess að fjármagna hið nýja bankakerfi. Sá vaxtakostnaður væri fljótur að mælast í tugum milljarða króna eins og kunnugt er. Ég tel að þetta hafi í öllum aðalatriðum gengið áfallalítið og svo gagnrýna menn að kostnaður hafi fallið á ríkið í öðru orðinu en eru svo kannski nánast að segja í hinu orðinu að ríkið hefði átt að taka á sig miklu meiri kostnað og meiri áhættu. Er verið að tala um það hér? Að eiga sjálft allt fjármálakerfið og leggja því öllu til fé? Þá finnst mér það nú mótsagnakennt.

Það er alveg rétt og er ekkert leyndarmál að í einu tilviki hefur það kostað ríkið að standa við yfirlýsingar um að tryggja allar innstæður landsmanna. Það var í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur og það þekkjum við öll og vitum. Það er sárt en það er afleiðing af tvennu. Annars vegar þeirri yfirlýsingu sem fyrri ríkisstjórn gaf og seinni ríkisstjórn hefur staðfest og staðið við, að allar innstæður landsmanna skyldu tryggðar og þeim yrði borgið ef fjármálafyrirtæki kæmust í þrot.

Að hinu leytinu er það afleiðing af því að þessi tiltekna fjármálastofnun, Sparisjóður Keflavíkur, reyndist svo hörmulega á sig kominn og þannig á sig kominn að innan að þegar upp var staðið vantaði verulega upp á að eignir dygðu fyrir innstæðum.