141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[00:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Að öðru leyti en áður hefur verið greint frá um breytingartillögur við 3. umr. bar svo við fyrr í kvöld að við sem studdum ekki að lækkaður yrði virðisaukaskattur á bleiur greiddum eðlilega atkvæði gegn gildistöku þess málefnis.

Það bar hins vegar svo við að þeir þingmenn sem samþykktu að lækka ætti virðisaukaskatt á bleium greiddu ekki allir atkvæði í því að það málefni tæki gildi. Í tíu ára veru minni á Alþingi þekki ég engin dæmi þess að þingmenn hafi greitt tilteknu málefni atkvæði sitt en greitt því ekki atkvæði sitt að málefnið tæki gildi. Það skapar þann vanda fyrir Alþingi að málefnið hefur verið samþykkt en að óbreyttu mun það aldrei taka gildi. [Hlátur í þingsal.] Það eykur enn á vandann að óheimilt er að flytja aftur tillögu sem áður hefur verið felld.

Til að leysa þetta mál fyrir þá sem hafa áhuga á því að lækka þennan virðisaukaskatt flyt ég hér tillögu um að gildistaka þessa ákvæðis verði hinn 1. júlí nk. Ég hvet (Forseti hringir.) þá sem voru á móti fyrra gildistökuákvæðinu til að styðja þessa tillögu og við í anda þeirrar góðu samvinnu og gagnkvæmu virðingar sem hér á að ríkja (Forseti hringir.) sameinumst um að leysa þetta mál, á þeim efnislega grundvelli að með þessu móti gefst nokkurt svigrúm áður en til gildistökunnar kemur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)