141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[00:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á orðalagi sem er úti um allt í þessum bandormi, en þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er lagt til að gjald í“ þennan eða hinn sjóðinn „verði hækkað í takt við almennar verðlagsbreytingar“ — eða í þessu tilfelli um 4,6%.

Frú forseti. Með þessum ákvæðum ár eftir ár og áratug eftir áratug er verðbólga innbyggð í íslenskt efnahagslíf, innbyggð af hálfu ríkisvaldsins með sjálfvirkum hækkunum. Þessar hækkanir leiða til hækkunar á vísitölu neysluverðs sem leiðir til hækkana á skuldum heimilanna og í fjárlögum næsta árs munu sömu heimildir og ákvæði vera.

Við verðum að reyna að komast út úr þessu með einhverjum vitrænum hætti. Ef menn tala í öðru orðinu um að fara eigi að afnema verðtryggingu og koma hér á stöðugleika eiga menn að hætta svona, því þetta er algjör heimska. Ég bara skil ekki (Forseti hringir.) hvernig stendur á því að svona atriði ratar inn í fjárlög áratug eftir áratug.