141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[00:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við greiðum atkvæði um fæðingar- og foreldraorlof, einn af þeim þáttum þar sem við erum að gefa til baka eftir hrunið. Það hefur vakið athygli mína í umræðunni að menn skuli leyfa sér að tala um að hér hafi verið um einhvern niðurskurð að ræða annan en þá nauðung sem við lentum í í framhaldi af hruninu árið 2008, þar sem við þurftum að stokka allt samfélagið upp á nýtt vegna tekjufalls ríkissjóðs.

Hér erum við að skila til baka varðandi hækkun á tekjumörkum, við erum að breyta aftur upp í 80%, við erum að lengja í tólf mánuði og breyta skiptingunni, fara upp í 5-2-5 mánuði. Ég fagna þessu öllu saman og líka því að þetta er hluti af stefnu okkar varðandi árið 2013 um að bæta stöðu barna og ég harma það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera hér á móti. (Gripið fram í.)