141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[00:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að kostnaður vegna þessarar breytingar mun koma fram á næstu árum, en það er ekki ástæða til að samþykkja hana ekki. Það er mikilvægt að sjá nú fram á að geta bæði lengt fæðingarorlof og hækkað hámarksgreiðslur. Það er holhljómur í málflutningi Sjálfstæðisflokksins hér í kvöld, (Gripið fram í.) því það kom í minn hlut og forvera míns, hæstv. forsætisráðherra, að draga úr útgjöldum til velferðarmála. Við vorum nauðbeygð til að skerða greiðslur í fæðingarorlofi. Við skertum þær þó þannig að þeir sem fengu hæstu greiðslurnar voru skertir en þeir sem báru minnst úr býtum voru ekki skertir að nokkru leyti.

Á borðinu fyrir fram mig beið mín tillögublað Sjálfstæðisflokksins frá haustinu 2008 um að lækka hlutdeildina niður í 60% af tekjum. (Gripið fram í.) Það gerðum við aldrei og gengum aldrei svo langt, þrátt fyrir ár eftir ár í niðurskurði, að gera það sama og Sjálfstæðisflokkurinn var tilbúinn að gera á fyrstu dögunum eftir hrun. (Gripið fram í.)