141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[02:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram afar merkileg umræða, sér í lagi þegar litið er til framsögumannsins, hv. þm. Marðar Árnasonar. Í ræðu sinni hamast hann við að réttlæta það að gera þetta frumvarp að lögum, því að eins og hv. þm. Atli Gíslason hefur farið yfir fer það klárlega gegn stjórnarskránni. Hér er gengið enn lengra en nokkurn tíma hefur verið gengið í innleiðingu reglugerða Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Það hefur komið skýrt fram bæði í nefndaráliti minni hlutans, sem hv. þm. Atli Gíslason fór yfir, og svo jafnframt fyrir nefndinni að þarna er um nýja tegund af innleiðingu að ræða. Þarna er reglugerð um viðskiptakerfi losunarheimilda Evrópusambandsins og sem ESB-mál hefur hún ekki farið fyrir sameiginlegu EES-nefndina sem er í raun fyrsta skrefið í því að innleiða hér reglugerðir og reglur Evrópusambandsins, heldur er þetta tekið beint út úr reglugerðinni og sett hér inn í frumvarp að lögum hér á landi.

Þetta er alveg ný vinnuaðferð, virðulegi forseti. Það er þetta sem við í minni hlutanum erum að vara við vegna þess að stjórnskipunarfræðingar hafa komið fyrir nefndina og sagt að tvístoðakerfið sem við höfum búið við hingað til dugi ekki. Það gekk m.a.s. svo langt að þegar átti að fara fram með þetta og bjóða Evrópusambandinu upp á það að innleiða lögin á þeirri reglu hafnaði Evrópusambandið því, vegna þess að nú er Evrópusambandið raunverulega með beina aðild hér á landi.

Mér finnst merkilegt að hv. þm. Mörður Árnason sé að áminna þingmenn um að fara satt og rétt með mál og benda á lítils háttar annmarka þegar þingmaðurinn sjálfur fer beinlínis með ósannindi í ræðustól þegar hann segir að allt frá árinu 2006 hafi verið á stefnuskránni að innleiða þetta kerfi og að Framsóknarflokkurinn hafi átt aðild að því á þessum árum. Þessu hafna ég vegna þess að þetta er einfaldlega ekki rétt. Það kemur fram í frumvarpinu sjálfu hvernig þessi þróun var.

Framsóknarflokkurinn og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir átti hins vegar allan heiðurinn af því að Íslendingar náðu inn hinu svokallaða íslenska ákvæði. Það náðist eingöngu inn vegna þess að við framleiðum græna orku og höfum ekki mikinn útblástur.

Til þess að rifja upp fyrir hv. framsögumanni málsins minni ég á að þegar Samfylkingin og Vinstri grænir komu í ríkisstjórn fórnuðu þeir íslenska ákvæðinu, sem var að verðmæti 15 milljarða kr. árið 2007, fyrir undirlægjuhátt við Evrópusambandið og gengust þessu ETS-kerfi á hönd. Á bls. 10 í frumvarpinu kemur fram að þrátt fyrir að Ísland hafi formlega verið aðili að viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir síðan 2008, virðulegi forseti, þá voru þessar reglur ekki innleiddar hér á landi fyrr en með lögum nr. 64/2011. Þar með leystu þau lög um losun gróðurhúsalofttegunda af hólmi. Það er því alveg splunkunýtt að Íslendingar séu að gangast þessu viðskiptakerfi á hönd og það að Samfylkingin og Vinstri grænir ætli að þvo hendur sínar af þessu máli með því að reyna að klína þessu yfir á aðra stjórnmálaflokka tekst ekki í kvöld, virðulegi forseti. En við höfum svo sem séð þessi vinnubrögð áður.

Samfylkingin og Vinstri grænir eiga þetta mál og þeir skulu sitja uppi með að setja lög sem fara gegn íslenskri stjórnarskrá. Lög sem geta skapað skaðabótaskyldu á hendur íslenska ríkinu, því þegar lög eru sett á Alþingi sem ganga gegn stjórnarskrá Íslands skapar það skaðabótaskyldu ríkisins. Við skulum átta okkur á því hvað málið er alvarlegt. En allt skal gert fyrir Evrópusambandið og það hefur sannað sig hér í þessu máli því það á að keyra þetta inn fyrir jólin.

Mig langar líka til að fara aðeins yfir það sem hv. þm. Mörður Árnason var að tala um, að atvinnulífið kallaði mjög eftir þessum reglum og að atvinnulífið mundi ýta á að þetta frumvarp færi í gegn. Atvinnulífið er náttúrlega fyrst og fremst að reyna að aðlaga sig að þeim leikreglum sem þessi ríkisstjórn hefur skapað. Ríkisstjórnin ákvað að ganga þessu losunarkerfi á hönd og þá varð atvinnulífið hér á landi að laga sig að þeim aðstæðum og byggja upp sinn rekstur með tilliti til þess hvaða reglur voru settar hér á þinginu, t.d. varðandi þetta kerfi. Það er því ekki nema von að atvinnulífið vilji halda áfram á þeirri braut og hugsa um atvinnulífsþáttinn. Ég minni á að Framsóknarflokkurinn er atvinnumálaflokkur og er bestur í því að skapa hér störf. Það breytir því ekki að þetta frumvarp er lagt fram á þeim grunni að það brjóti gegn stjórnarskrá og það get ég alls ekki sætt mig við. Ég kem til með að greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi í ljósi þess að ég get ekki tekið þátt í stjórnarskrárbrotum. Stjórnarskráin á að njóta vafans eins og hv. þm. Atli Gíslason fór yfir. Ef hinn minnsti grunur leikur á um að hér sé verið að setja lög sem brjóta gegn stjórnarskránni á stjórnarskráin að njóta þess en ekki viðkomandi lög. Þau þurfa svo að fara fyrir dómstóla til að úr fái skorist um hver réttarágreiningurinn er og hvort þetta sé á þann hátt sem verið er að fjalla um.

Það er verið að innleiða íþyngjandi sektarákvæði í gegnum þessa reglugerð frá Evrópusambandinu beint inn í lög. Allt í einu er hv. þm. Mörður Árnason farinn að tala um að lögin séu bara alls ekki íþyngjandi, þau séu m.a.s. ívilnandi fyrir fyrirtækin. Svo er ekki. Það er alveg ótrúlegt hvað er hægt að snúa málum mikið á hvolf og breyta merkingu orðanna, raunverulega heilu frumvarpanna, bara til þess að reyna að sannfæra sjálfa sig um að þetta mál sé í lagi. En það kemur fram bæði í nefndaráliti meiri hlutans og náttúrlega frumvarpinu sjálfu að þetta eru íþyngjandi reglur sem er verið að setja. Því langar mig til að fara í X. kafla minnihlutaálits umhverfis- og samgöngunefndar um íþyngjandi ákvæði og hver skilningurinn á því er. Eins og hefur komið fram skrifa hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Birgir Ármannsson og Árni Johnsen undir þetta álit. Með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa upp úr því merkilegan fróðleik. Það sem ég ætla að lesa upp orðrétt er tekið upp úr greinargerð frá samningahópi um lagaleg málefni Íslands með hliðsjón af umsókninni að Evrópusambandinu, sem kom út 22. október 2012. Greinargerðin ber heitið Greinargerð um breytingar á stjórnarskrá sem tengjast mögulegri aðild að Evrópusambandinu og leiðir til að leita samþykkis þjóðarinnar fyrir aðild.

Í lokaorðum greinargerðarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Hér verða dregnar saman helstu niðurstöður um áhrif aðildar Íslands að ESB á íslenska stjórnskipun. Mikilvægasta álitamálið lýtur að breytingum sem nauðsynlegt er að gera á stjórnarskránni, einkum varðandi heimild til að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana, hvaða skilyrði skuli setja fyrir slíku framsali og hvaða reglur skuli gilda um málsmeðferð við slíka ákvörðun. Þarf setning slíks ákvæðis ekki beinlínis að tengjast aðild að ESB enda er skynsamlegt og reyndar tímabært að stjórnarskráin mæli fyrir um heimild til að taka þátt í alþjóðasamvinnu af þessum toga. Ef og þegar reynir á aðild að ESB er mikilvægt að stjórnskipulegur farvegur fyrir vandaða málsmeðferð sé til staðar.

Þá liggur fyrir að í EES-samstarfinu vakna stöðugt fleiri álitaefni um hvort farið sé út fyrir mörk stjórnarskrárinnar með þróun EES-samningsins og innleiðingu nýrra gerða sem stefna að auknu valdaframsali. Þannig hafa forsendur breyst í ýmsu tilliti frá því að samningurinn tók gildi. Með setningu ákvæðis í stjórnarskrá um heimild til framsals ríkisvalds yrði tryggt að áframhaldandi þróun í þessa átt færi ekki í bága við stjórnarskrána og hægt væri að samþykkja nýjar gerðar sem fela í sér valdaframsal eftir nýrri og vandaðri málsmeðferð.

Bent var á þann valkost að bæta megi tveimur ákvæðum við stjórnarskrána í þeim tvíþætta tilgangi að bregðast við þróun í EES-samstarfinu annars vegar og hins vegar að þjóðin hafi lagalega bindandi ákvörðunarvald um aðild að Evrópusambandinu.

Eðlilegt er að undirbúningur verði þegar hafinn að breytingum á stjórnarskrá í þessu skyni og miðað við að þær yrðu samþykktar í síðasta lagi á vorþingi 2013 áður en næstu reglulegu kosningar fara fram. Setja ætti þetta mál í forgang, án tillits til þess hvort víðtækari breytingar verði gerðar á stjórnarskránni samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs eða hvort samningaviðræðum við ESB verður lokið við það tímamark. Þegar aðildarsamningur liggur fyrir mun málsmeðferð um samþykki hans á Alþingi fylgja þeim reglum sem koma fram í hinu nýja stjórnarskrárákvæði.

Ekki er þörf á að breyta stjórnarskránni í öðrum atriðum til að hún verði efnislega í samræmi við regluverk ESB. Samhliða nauðsynlegum breytingum um framsal ríkisvalds sem lýst er að framan er þó vert að huga að orðalagsbreytingum á 43. gr. stjórnarskrárinnar til að taka af tvímæli um sjálfstæði ríkisendurskoðunar. Verði Ísland aðili að ESB er síðan vert að huga að því að ákvæði stjórnarskrárinnar endurspegli þátttöku landsins í sambandinu og samspil stofnana þess við innanlandsstofnanir.“

Virðulegi forseti. Það eru afar merkileg orð sem koma fram í þessari greinargerð samningahópsins varðandi Evrópusambandsaðild. Af þessum lokaorðum má sterklega álykta að heimild skorti til að hægt sé að framselja það opinbera vald sem frumvarpið kveður á um.

Virðulegi forseti. Ég lít mjög alvarlegum augum á hversu frjálslega er farið með valdheimildir stjórnarskrárinnar með því taka þetta frumvarp og ætla að gera það að lögum. Ég lýsi fullri ábyrgð á þessu frumvarpi og þessari lagasetningu á hendur ríkisstjórnarinnar. Það er á hennar ábyrgð ef það kemur í ljós síðar að skaðabótaskylda ríkisins myndast vegna þessarar lagasetningar. Virðulegi forseti, berin eru súr, berin eru gallsúr. Það skal allt gert til þess að komast í Evrópufaðminn.

Ég lagði til á sameiginlegum fundi umhverfisnefndar og utanríkismálanefndar hér fyrr í kvöld hvort ekki væri hægt að fá það svigrúm sem til þarf hjá Evrópusambandinu svo að við þyrftum ekki að innleiða þessi lög fyrr en það væri þá búið að breyta ákvæðinu varðandi valdaframsal í stjórnarskránni fyrir næstu alþingiskosningar. Þá væri hægt að taka það sérstaklega út og leggja áherslu á það í vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vegna þess að þetta er farið að skarast svona mjög á. Þá töldu fulltrúar utanríkisráðuneytis það ekki vera hægt. Ef Alþingi mundi samþykkja að fresta þessari lagasetningu mundu embættismenn ríkisins að sjálfsögðu fara í þessa samninga. Á meðan þessi Evrópusambandsumsókn hangir inni hjá Evrópusambandinu eigum við að sjálfsögðu að fara fram með okkar samninga og tilkynna Evrópusambandinu að stjórnarskrá okkar er vanbúin til þess að takast á við þessa lagasetningu. Svo einfalt er það, virðulegi forseti.

Svo í öðru lagi, verði þetta ekki hér að lögum í kvöld og stjórnarskráin verði látin njóta vafans kom fram í máli gesta á fundinum hvað mundi gerast í rekstri þeirra ef þetta yrði ekki að lögum. Það sem stóð upp úr því svari var að þá þyrftu þeir jafnvel að leggja inn losunarheimildir sínar erlendis og eiga viðskipti með þær. Þá er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, draga úr umfangi Umhverfisstofnunar og hreinlega stofna reikninga erlendis. Hvers vegna eigum við, þetta litla eyríki, að vera að standa í því að reka hér loftslagsheimildaígildisbanka?

Virðulegi forseti. Ég hef þetta ekki lengra, klukkan er orðin margt. Ég lýsi aftur fullri ábyrgð á þessu máli á vinstri flokkanna. Það er þeirra skömm að sitja uppi með það ef og þegar það kemur í ljós að um meiri háttar stjórnarskrárbrot er að ræða, eins og okkar færustu sérfræðingar í stjórnskipunarrétti álykta.