141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[02:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þau sjónarmið sem ég byggi afstöðu mína á í þessu máli birtast auðvitað í ítarlegu máli í því nefndaráliti sem ég undirritaði ásamt hv. þingmönnum Atla Gíslasyni, sem var framsögumaður okkar í þessari umræðu, Ásmundi Einari Daðasyni og Árna Johnsen. Þetta nefndarálit greinir ágætlega frá meginsjónarmiðum okkar til málsins, bæði þessa máls sem slíks og hinnar almennu spurningar sem þarna er til umfjöllunar, og vísa ég í það máli mínu til stuðnings. Þess vegna ætla ég ekki að fara í gegnum það allt hér, að sjálfsögðu ekki, ég ætla að láta mér nægja að nefna það sem mér finnst skipta mestu máli og fyllir kannski upp í það sem hv. þm. Atli Gíslason skildi vísvitandi eftir hér áðan, lét mér eftir að fara nánar í. Það varðar spurninguna um framsal valds eftir annars vegar tveggja stoða kerfi og hins vegar út fyrir tveggja stoða kerfi sem eru hugtök sem hafa öðlast nokkurn þegnrétt í að minnsta kosti lagamáli í sambandi við þessi efni.

Við höfum í nokkrum tilvikum á undanförnum árum farið í gegnum umræður um það hvort tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið á Alþingi brytu í bága við stjórnarskrána vegna þess að þær fælu í sér óheimilt framsal valds til alþjóðlegra stofnana.

Það er rétt sem hefur komið fram að það hefur verið niðurstaða meiri hluta Alþingis í öllum þessum tilvikum að slíkt vald sem þar er um að ræða felist í almennum heimildum löggjafans að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Ég vek athygli á því að í þeim tilvikum hefur verið um að ræða framsal til stofnana EFTA á grundvelli hugmyndarinnar um tveggja stoða kerfi, þ.e. að samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins byggðist á tveimur stoðum, Evrópusambandsstoð annars vegar og EFTA-stoð hins vegar. Við ættum aðild að EFTA-stoðinni sem aðildarríki að EFTA en ekki að ESB-stoðinni og þess vegna hlytu okkar tengsl, þar á meðal hugsanlegt framsal valds á afmörkuðum eða takmörkuðum sviðum, einungis að eiga við um EFTA-stofnanir. Það hefur verið álitið að það væri algjörlega utan rammans að hægt væri að framselja vald með sambærilegum hætti til stofnana ESB, það hefur verið gengið út frá því. Í öllum þeim skrifum sem um þetta er að finna er gengið út frá því að við sem aðilar að EFTA hljótum að eiga okkar samskipti við EFTA en ekki ESB að þessu leyti.

Í grunninn var ákveðið að byggja upp þetta tveggja stoða kerfi vegna þess að þegar til EES-samningsins er stofnað á sínum tíma var tekin meðvituð ákvörðun um að byggja upp tveggja stoða kerfi til að aðlaga fyrirkomulag samningsins og efnahagssvæðisins betur að stjórnskipulegum takmörkunum, m.a. hér á landi, en að nokkru leyti einnig í hinum EFTA-löndunum.

Mér sýnist þetta mál ekki fullnægja skilyrðum um tveggja stoða kerfi. Gert er ráð fyrir beinum fyrirmælum frá stofnunum Evrópusambandsins. Það er reyndar gert ráð fyrir að í þeim tilvikum sem beinast að einstaklingum og lögaðilum hafi fyrirmælin nokkurs konar viðkomu á skrifstofu Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel, sem hafi þá þrjá daga til að bregðast við, en í öðrum tilvikum er gert ráð fyrir beinu valdi. Það er því mikill vafi í mínum huga hvort hægt sé að tala um þá lausn sem hér liggur á borðinu sem tveggja stoða lausn.

Ég ætla að rifja upp forsögu málsins að því leyti að þegar reglugerð ESB kom upphaflega til skoðunar, m.a. í lögfræðiáliti Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen í sumar, var gert ráð fyrir framsali valds til stofnana ESB. Þau komust að þeirri niðurstöðu að það væri mjög miklum annmörkum háð miðað við stjórnskipunina og vöruðu við þeirri lausn sem þá lá á borðinu. Íslensk stjórnvöld brugðust við með því að gera tilboð eða færa málið í búning sem líktist meira hinu tveggja stoða kerfi. Þeirri lausn var hafnað af lagaskrifstofu Evrópusambandsins og núna í lok nóvember fáum við á borðið þá lausn sem felst í breytingartillögum meiri hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd sem felur í sér að nafni Eftirlitsstofnunar EFTA er vissulega komið inn í textann en hið raunverulega vald liggur enn hjá Evrópusambandsstofnunum.

Þetta er ófullnægjandi að mínu mati, hæstv. forseti. Þetta felur í sér verulegan stjórnskipulegan vafa. Ég óttast að þetta mál kunni að verða nýtt sem fordæmi fyrir frekara fullveldisframsali til stofnana á hinum evrópska vettvangi. Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni sem sagði áðan að sennilega hefðum við átt að vara við þessu fyrr, sennilega fyrir mörgum árum, því að hér hafa verið tekin ákveðin skref í þá átt að framselja vald til evrópskra stofnana. Hugsanlega hefðum við átt að setja hælana niður fyrr, en á það ber þó að líta að í þeim tilvikum sem við höfum fengist við á undanförnum árum hafa jafnan legið til grundvallar þeirri lausn sem valin hefur verið lögfræðilegar álitsgerðir stjórnskipunarfræðinga. En svo er ekki í þessu máli því að frá því að stjórnskipunarfræðingar komu að þessu máli hefur það tekið verulegum breytingum. Fyrir þeirri lausn sem nú liggur á borðinu höfum við ekki utanaðkomandi óháð álit. Við höfum álit ágætra embættismanna í utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti og við höfum mismunandi álit ólíkra þingmanna hér innan húss en hið utanaðkomandi óháða álit sérfræðinga skortir. Ég bið hv. þingmenn að hafa það í huga þegar þeir ganga til atkvæðagreiðslu að það er munur á þeirri stöðu sem við erum í hér í dag og því þegar við afgreiddum ýmis önnur mál á fyrri stigum sem einnig voru vafasöm út frá stjórnskipulegum þáttum.

Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara nánar í þetta. Ég hef eingöngu staldrað við hinn stjórnskipulega þátt málsins vegna þess að ég hef áhyggjur af honum í þessu sambandi. Ég er ekki andvígur viðskiptakerfinu með loftslagskvóta. Mér finnst reyndar, kannski vegna þess að ég er frekar jarðbundinn, margt skringilegt í sambandi við það viðskiptakerfi og þá hugmyndafræði sem þar býr að baki. Hins vegar átta ég mig vel á þeim möguleikum sem í kerfinu felast fyrir íslensk fyrirtæki á sviði iðnaðar og samgangna og er frekar hlynntur því. Þess vegna hef ég verið hlynntur skrefum sem stigin hafa verið áður í þinginu og fela í sér aðild okkar að þessu viðskiptakerfi.

Hinn stjórnskipulegi viðvörunarfáni var reistur í sumar með álitsgerð sem skilað var til þriggja ráðherra 12. júní, viku áður en frumvarp — ekki um þetta efni heldur um annað efni — var afgreitt á þinginu. Þá tókum við næsta skref á undan þessu, ef við getum orðað það svo, í því að verða aðilar að þessu viðskiptakerfi með losunarheimildir. Viku eftir að við þingmenn höfðum afgreitt málið á þingi vorum við upplýst um það að næsta skref, þ.e. skrefið sem yrði nauðsynlegt til að aðild okkar að kerfinu gæti orðið raunveruleg, yrði ekki tekið nema farið yrði út á þetta gráa svæði stjórnskipulega séð. Ég fordæmi þau vinnubrögð ríkisstjórnarinnar að upplýsa þingið ekki á meðan loftslagsmálið var til umfjöllunar hér í sumar um þær upplýsingar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar höfðu á þeim tíma, hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Þessi þrír ráðherrar höfðu 12. júní í höndunum lögfræðiálit sem þeir héldu hjá sér þangað til þingið var búið að ákveða síðasta skref í þessum málum.

Þegar álit lögfræðinganna varð opinbert og kom til umfjöllunar þá fékk það ágæta umfjöllun í nefndum. Gert var ráð fyrir ákveðnum lausnum í þeim efnum en þær lausnir náðu ekki fram að ganga. Við erum á þeim stað að meiri hlutinn í þinginu, meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar og meiri hluti utanríkismálanefndar, mæla nú með því að við samþykkjum tillögu sem felur í sér lausn sem er ófullnægjandi að mínu mati út frá stjórnskipulegu sjónarmiði.

Auðvitað er vafi í svona málum. Þingmenn geta valið að túlka vafann með stjórnarskránni eða gegn stjórnarskránni, þeir geta valið um það. Þeir geta valið að samþykkja tillöguna í von um að þau atriði sem eru óljós og ekki hafa verið útkljáð verði í lagi. Ég treysti mér ekki til að gera það og get þess vegna ekki stutt þetta frumvarp. Vafinn um að þetta mál standist út frá stjórnskipulegu sjónarhorni er slíkur að ég get ekki greitt þessu máli atkvæði mitt, jafnvel þó að ég sé fylgjandi því að íslensk fyrirtæki eigi þess kost að taka þátt í þessu viðskiptakerfi. Það er vont að Alþingi Íslendinga skuli standa í þeim sporum að þurfa að taka afstöðu til þessa máls núna í tímapressu á síðasta degi þingsins án þess að leitað hafi verið leiða til að útkljá eða fá að minnsta kosti betri vissu eða meiri upplýsingar um þann stjórnskipulega vafa sem óneitanlega og óhjákvæmilega kemur upp þegar mál af þessu tagi er til umfjöllunar. Þarna er, hæstv. forseti, að mínu mati allt of mikill vafi til að ég geti stutt þetta mál.