141. löggjafarþing — 62. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[03:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar við þingmenn tökum afstöðu til mála af þessu tagi verðum við hvert um sig að gera það upp við samvisku okkar hvort við styðjum þau af sannfæringu eða ekki. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að þetta mál, eins og það er fram sett og eins því hefur verið breytt í meðförum þingsins, rúmist innan ramma stjórnarskrárinnar. Ég hef um það verulegar efasemdir og get því ekki greitt þessu máli atkvæði jafnvel þó að ég sé, eins og áður kom fram í mínu máli, ekki andvígur því loftslagsviðskiptakerfi sem hér um ræðir og telji augljóst að íslensk fyrirtæki geti haft verulega hagsmuni af því að taka þátt í því.

Ég vona að þetta mál verði ekki síðar notað sem fyrirmynd eða fordæmi fyrir sambærilegum ákvörðunum varðandi framsal til alþjóðlegra stofnana og vara við því að það verði gert. Því miður höfum við séð að hvert það skref sem stigið er í þá átt að framselja (Forseti hringir.) hluta ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana, er notað sem (Forseti hringir.) rökstuðningur fyrir því næsta og það er þróun sem ber að vara við. (Gripið fram í: Hverjir samþykktu EES?)