141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hæstv. umhverfisráðherra sagði, þessi tillaga byggir á langri vinnu. Við sjálfstæðismenn höfum staðið að þeirri vinnu og þegar tillögur lágu fyrir og niðurstöður frá verkefnisstjórn, formannahópi og þeim fagaðilum sem höfðu unnið að undirbúningi málsins töldum við rétt að halda okkur við það, jafnvel þó að við kynnum að hafa aðrar skoðanir á einstökum virkjunarkostum sem fóru á annan veg. Við töldum rétt að halda okkur við þá niðurstöðu sem byggt var á í undirbúningsferlinu.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar tóku ákvörðun um að víkja frá því ferli og það hefur litað mjög málið í þinginu og leitt til þess að mál sem átti að vinna í samstöðu er orðið að átakamáli.