141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Með samþykkt þessa máls í dag eru mörkuð tímamót. Með því hefur skapast samstaða um leikreglur í þeirri erfiðu deilu sem hér hefur staðið samfellt í fjóra áratugi um náttúrusvæði og virkjunaráform þar sem tekist hafa á fylkingar sem ekki hafa skilið grundvallarsjónarmið hvor annarrar. Rétt er að minna á að allir fjórir helstu stjórnmálaflokkar sem hér eru á þinginu hafa átt hlut að máli í verkinu, sem hófst raunar á níunda áratugnum. Samstaða um leikreglur getur skapast hér en áfram verður tekist á um einstakar virkjanir á landsvæði utan þings og innan eins og má sjá hér á eftir.

Við þingmenn Samfylkingarinnar berum þetta mál fyrir brjósti og teljum það eitt allra merkilegasta málið á kjörtímabilinu. Í dag tölum við einum rómi, stöndum gegn öllum breytingartillögum sem hér eru komnar fram og greiðum að lokum atkvæði með fyrstu þingsályktunartillögunni um verndarnýtingu og orkunýtingu landsvæða á Íslandi.