141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hér er að ljúka öðrum áfanga rammaáætlunar, ferli sem tekið hefur mjög langan tíma og allir flokkar hafa komið að. Það kom í hlut okkar framsóknarmanna að hafa frumkvæði að því að setja ferlið í gang. Við höfum því talið ákaflega mikilvægt að því mundi ljúka með sama hætti og það var sett af stað, þ.e. að hér væri gerð merkileg tilraun til að ná fram sátt og nokkru samlyndi um mjög ólíka hagsmuni.

Í meðförum hæstv. ríkisstjórnar hefur sá friður verið í sundur slitinn. Hér liggur fyrir pólitískt plagg sem eru því miður gríðarleg átök um. Ég óttast að afleiðingin verði sú að það sem samþykkt verður í dag muni ekki lifa lengi. Við framsóknarmenn munum greiða atkvæði að meginstefnu samkvæmt því að sú rammaáætlun sem vísindamenn skiluðu af sér muni standa en ekki það pólitíska plagg sem hér er (Forseti hringir.) borið fram af meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.