141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í skýrslu verkefnisstjórnar um rammaáætlun sem skilað var í júní 2011 raðaði verkefnisstjórnin virkjunarkostum í samræmi við niðurstöður og niðurröðun faghópa, en hún flokkaði virkjunarkostina ekki enda hafði henni ekki verið falið að gera það. Eftir skil nefndarinnar fór í gang ógagnsætt ferli þar sem ekki var að öllu leyti byggt á niðurstöðum faghópanna og svo virðist sem ráðherra hafi látið pólitísk sjónarmið ráða för.

Þarna urðu skil í því faglega ferli sem fram að því hafði einkennt alla vinnu við gerð rammaáætlunar. Þegar menn tala um að þverpólitísk sátt hafi verið um leikreglurnar mega menn ekki gleyma því hvað gerðist þegar faghóparnir höfðu skilað af sér og síðan verkefnisstjórnin. Við höfum gert athugasemdir við það ferli, við höfum lagt fram breytingartillögur (Forseti hringir.) og við munum styðja tillögur sem lagðar verða fram í dag sem miða að því að koma málinu aftur í hið faglega ferli svo sáttin haldi en verði ekki rofin eins og ríkisstjórnin stefnir að að gera.