141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um mjög mikilvægt mál. Það hefur verið lengi í vinnslu, í 13 ár, og þingmenn allra flokka hafa tjáð sig um að hér skuli og eigi að ríkja sátt um niðurstöður verkefnisstjórnar um rammaáætlun.

Hins vegar er vikið frá niðurstöðum verkefnisstjórnar í veigamiklum atriðum í þeirri tillögu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt fram og greidd eru atkvæði um. Það þykir mér afskaplega leitt að sjá vegna þess að í þessu máli höfðu íslenskir stjórnmálamenn tækifæri til að sýna að þeir geta borið virðingu fyrir faglegum vinnubrögðum og haldið sig við faglegar niðurstöður. Það mun hins vegar sjást í atkvæðagreiðslunni á eftir að ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnmálamenn sem starfa á vinstri vængnum ráða ekki við þá aðferðafræði. Ég er afskaplega döpur vegna þess því að ég hef þá trú að pólitíkin verði að breytast, við verðum að sýna það að við getum hafið okkur upp yfir pólitíska flokkadrætti og sett fagleg vinnubrögð í forgang í staðinn fyrir að koma fram með tillögu sem er það breytt (Forseti hringir.) frá niðurstöðu verkefnisstjórnar að augljóst er að henni er einungis ætlað að framlengja líf þessarar ríkisstjórnar.