141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:54]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um mikið þjóðþrifamál sem byggir m.a. á því að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar um að flétta saman efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg sjónarmið verði ein meginforsenda allrar ákvörðunartöku um orkunýtingu eða vernd tiltekinna landsvæða í framtíðinni.

Kjarni rammaáætlunar er einmitt viljinn til að skapa meira jafnvægi á milli sjónarmiða um orkunýtingu og náttúruvernd en gert var á árum áður og með samþykkt hennar í dag verður í fyrsta sinn kominn traustur, heildstæður grundvöllur fyrir ákvörðunartöku um landnýtingu í málaflokki sem skapað hefur meiri deilur í samfélagi okkar undanfarna áratugi en nokkur annar málaflokkur.

Afgreiðsla rammaáætlunar í dag er því sögulegur áfangi fyrir íslenska þjóð og er ástæða til að þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, hv. umhverfis- og samgöngunefnd og öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn undanfarna tvo áratugi og rúmlega það fyrir framlag sitt til þessa merkilega verks, en í þeim hópi eru fulltrúar allra (Forseti hringir.) stjórnmálahreyfinga í þessum sal.