141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:59]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki ofsögum sagt að rammaáætlun og samþykkt hennar frá Alþingi marki þáttaskil er varðar faglega ákvörðunartöku um vernd og nýtingu landsvæða til langrar framtíðar. Það er mikilvægt út frá mörgum sjónarmiðum að rammaáætlun verði afgreidd frá þinginu þrátt fyrir álitaefni um einstök atriði og skiptir miklu máli að hún fuðri ekki upp í átökum um tiltekna virkjunarkosti. Ferlið er vissulega ófullkomið og er minni samstaða um niðurstöðuna en vonir stóðu til, en slík áætlun verður aldrei og á aldrei að verða pólitískur óskalisti einstakra þingmanna. Fagleg sjónarmið eiga að ráða för.

Ég mundi sjálfur vilja sjá tiltekna flokkun öðruvísi en efni standa til í tillögunni. Brýnir almannahagsmunir liggja hins vegar í því að ljúka afgreiðslu áætlunarinnar frekar en að standa í vegi fyrir því vegna prívatskoðana einstakra þingmanna. Mun ég þess vegna greiða atkvæði á móti einstökum breytingartillögum við tillögu meiri hlutans og með tillögunni í lokin í trausti þess að aukin sátt og faglegt ferli verði viðhaft (Forseti hringir.) um langa framtíð í nafni náttúruverndar og skynsamlegrar orkunýtingar.