141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mikil ábyrgð hvílir á þingmeirihlutanum fyrir að rjúfa það faglega ferli sem lagt var af stað með við vinnu rammaáætlunar. Því fylgir mikil ábyrgð að koma málinu í pólitískt uppnám eins og verið er að gera með þeirri tillögu sem liggur fyrir þinginu.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram tillögu í þessu ferli þar sem lagt var til að farið yrði aftur með málið til verkefnisstjórnarinnar, það falið aftur þeim sem unnu hina faglegu vinnu. Þessu var hafnað, meiri hlutinn á þingi hafnaði þessari sáttatillögu, þessu faglega ferli. Sáttin hefur verið rofin og það er mikill tvískinnungur sem felst í yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar, t.d. þeirri sem hún gaf út í tengslum við kjarasamninga 11. maí 2011 þar sem hún lofaði ákveðinni fjárfestingu í landinu. Sú fjárfesting verður fyrst og fremst til í kringum þessa rammaáætlun. (Forseti hringir.) Sú fjárfesting verður ekki til samkvæmt þeirri rammaáætlun sem hér liggur fyrir.

Ég skora á þingmenn og höfða til ábyrgðar þeirra í því að styðja (Forseti hringir.) ákveðna breytingartillögu um augljósa virkjunarkosti sem eiga heima í nýtingarflokki samkvæmt þeirri faglegu vinnu sem fór fram.