141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:20]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að greitt verði sérstaklega atkvæði um liði a, b, c og d í þessari tillögu. Ég vil grípa niður í fyrirvara fyrrverandi hv. þm. Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um þá óvissu sem lýtur að jarðvarmavirkjunum og þá sérstaklega þær hugmyndir sem uppi eru á Reykjanesskaganum. Sú óvissa varðar sjálfbærni orkuvinnslunnar, mengun grunnvatns af völdum affallsvatns, mengun lofts af völdum brennisteinsvetnis, neikvæð áhrif á heilsu fólks og jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar. Umtalsverðar upplýsingar vantar varðandi þessa þætti. Þess vegna er full ástæða til að setja að minnsta kosti fjórar virkjunarhugmyndir í biðflokk. Þá er ég að tala um Sveifluháls, Stóru-Sandvík, Sandfell og Eldvörp. Þess vegna ætla ég að styðja þá liði breytingartillögunnar.