141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár, Urriðafoss-, Holta- og Hvammsvirkjanir, eru taldir einhverjir hagkvæmustu virkjunarkostir sem hafa verið skoðaðir í vatnsafli. Í tillögum verkefnisstjórnarinnar skora þessir virkjunarkostir mjög hátt í nýtingu en lágt í vernd. Þetta eru virkjunarkostir sem munu hafa mjög lítil áhrif á umhverfi sitt og rökin fyrir því að færa þetta úr nýtingarflokki í biðflokk eru upplýsingar sem hafa komið fram um laxastofninn í Þjórsá. Þeim upplýsingum er aftur hafnað af okkar færustu sérfræðingum á þessu sviði, eins og hjá Veiðimálastofnun og Landsvirkjun, og lagt til að þessir virkjunarkostir verði áfram í nýtingarflokki. Engir virkjunarkostir í landinu hafa verið rannsakaðir jafnmikið og þessir. Þeir eru nánast tilbúnir til framkvæmda. Urriðafoss mun reyndar ekki fara í virkjun strax vegna þess að umhverfismat vegna þess virkjunarkosts rennur út á þessu ári (Forseti hringir.) og það þarf að fara fram nýtt umhverfismat. Það gildir ekki um Holta- og Hvammsvirkjun sem eru tilbúnir kostir til að hefja framkvæmdir við nú þegar. Það eru nauðsynlegar (Forseti hringir.) framkvæmdir til að standa við fjárfestingaráætlun og fjárfestingarloforð ríkisstjórnarinnar sem eru reyndar — (Forseti hringir.) þessar fjárfestingar eru svo nauðsynlegar fyrir okkar samfélag.