141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Orkustofnun hefur bent á að þær virkjanir sem við erum að ræða um í neðri hluta Þjórsár séu best rannsökuðu og hagkvæmustu virkjunarkostirnir sem við eigum völ á. Þær upplýsingar sem við þurfum til þess að taka ákvörðun um það með hvaða hætti við nýtum þessa virkjunarkosti liggja með öðrum orðum allir fyrir. Það er yfirvarp frá hæstv. ríkisstjórn að þeir kostir þurfi frekari rannsókna við. Þær rannsóknir hafa farið fram. Okkur ber þess vegna skylda til þess að taka efnislega afstöðu til þess hvort þessir virkjunarkostir eigi að fara í nýtingarflokk. Það er augljóst þegar þessi gögn eru skoðuð að það eru yfirgnæfandi rök fyrir því að þessir virkjunarkostir eigi að vera í nýtingarflokki. Þess vegna hvet ég til þess að við samþykkjum þessa breytingartillögu sem er þá líka í samræmi við það faglega ferli og þá faglegu vinnu sem unnin hefur verið en ekki það sem gerðist á síðustu metrum þessarar vinnu þegar hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) blandaði sér í málið með þeim hætti að taka málið út úr hinu faglega ferli.