141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég styð þessa breytingartillögu. Ef maður skoðar umfjöllun og niðurstöður sem verkefnisstjórn í rammaáætlun kemst að á grundvelli allra þeirra gagna sem máli skipta í þessu máli sér maður að það liggur beint við að þessar virkjanir, bæði Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, fari í nýtingu. Það hefur margoft komið fram í umræðunni. Öll gögn málsins og allar umsagnir leiða okkur að þeirri niðurstöðu að hér sé um hagkvæma kosti að ræða. Þeir raðast þannig af sjónarhóli nýtingar og af sjónarhóli verndar í niðurstöðum verkefnisstjórnar um rammaáætlun að þessir kostir eigi að fara í nýtingu.

Ég skil ekki málflutninginn hér um að nægileg gögn hafi ekki komið fram um þessa virkjunarkosti. Af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er um biðleik að ræða til að halda ríkisstjórninni saman, enda hafa einstakir þingmenn úr röðum stjórnarliða lýst því yfir að þeir mundu ekki styðja ríkisstjórnina áfram ef þessir kostir röðuðust í nýtingarflokk. (Gripið fram í.)