141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um þessa breytingartillögu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og fleiri er það að segja að virkjunarkostirnir sem kenndir eru við Hvamm og Holt eru í biðflokki samkvæmt tillögunni sem hér liggur fyrir. Þar koma laxarökin við sögu fyrst og fremst og ef þau eiga við um Urriðafoss er líklegt að þau eigi líka að einhverju leyti við um efri virkjunarstaðina. Það sem við erum að gera hér er að fylgja fram varúðarreglunni sem svo heitir í umhverfisréttinum og hefur það inntak að ef ekki liggja fyrir vísindalegar upplýsingar um að framkvæmdir eða starfsemi séu skaðlausar fyrir náttúruna eigi náttúran að njóta vafans.

Á þessum forsendum segi ég nei við þessum tillögum.