141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þau rök sem tínd eru til gagnvart virkjunarkostum í neðri hluta Þjórsár um að þetta geti haft mjög neikvæð áhrif á laxastofninn í ánni standast ekki. Eins og fram hefur komið hafa þessar rannsóknir þegar farið fram. Það hefur enginn laxastofn á Ísland og sennilega ekki í víðri veröld verið rannsakaður meira (Gripið fram í.) en laxastofninn í Þjórsá og við höfum fengið færustu sérfræðinga þjóðarinnar á fund nefndarinnar (Gripið fram í: Ekki alla.) [Hlátur í þingsal.] þar sem þetta hefur komið ítrekað fram, virðulegi forseti. Þessi rök halda ekki, það eru aftur á móti pólitísk rök fyrir því að setja þessa virkjunarkosti niður í bið.

Það eina sem er í rauninni eftir er að sannreyna þær úrlausnir sem Landsvirkjun ætlar að nota í neðri hluta Þjórsár til að viðhalda eflingu laxastofnsins í þeirri á og það verður gert nákvæmlega með byggingu virkjananna við Holt og Hvamm. Það eru engir virkjunarkostir komnir eins langt í undirbúningi. (Forseti hringir.) Þetta eru nauðsynlegar framkvæmdir sem þjóðfélagið þarf á að halda og það er skömm að því að (Forseti hringir.) við skulum setja þennan pólitíska blett á rammaáætlun.