141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:45]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ef af yrði yrði þessi virkjun sú eina á sínu vatnasviði. Þess vegna þarf að fara þarna að með alveg sérstakri gát eins og formannahópurinn lagði til og síðan er lagt til í þessari þingsályktunartillögu.

Kosturinn er núna í biðflokki og það bíður næstu faghópa og verkefnisstjórnar að meta þau gögn sem hv. þingmaður ræddi hér um. Þau verða ekki metin neins staðar annars staðar ef við ætlum að halda trúnað við það ferli sem hér er í gangi. Þau verða ekki metin á skrifstofu hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar og ekki hjá þeim einstaklingi sem skrifaði það innanráðuneytisbréf sem hér var vitnað til. Þau verða einungis metin á réttan hátt í faghópunum og í verkefnisstjórninni og það mat á síðan að berast lengra í ferlið. Þetta verður gert, það er ekki verið að slá þessa virkjun af heldur setja hana í biðflokk. Það er verið að fresta þeim ákvörðunum sem þarf að taka í þessu efni.