141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er talað um að fylgja hinu faglega ferli. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á það áðan að við ættum að fylgja hinu faglega ferli. Það er nákvæmlega það sem er verið að gera með þessum breytingartillögum. Það er verið að víkja frá hinu pólitíska ferli sem hæstv. ríkisstjórn ákvað að setja þetta mál í og hinu faglega ferli er fylgt. Það hefur verið meginmarkmið okkar sjálfstæðismanna í þessu máli. Við höfum lagt fram tillögur um að það yrði sent aftur til verkefnisstjórnarinnar, hún mundi raða virkjunarkostunum niður í flokka.

Við erum tilbúin að sætta okkur við niðurstöðu úr því faglega ferli, en það eru ríkisstjórnarflokkarnir ekki tilbúnir að gera. Við flytjum hér því breytingartillögur í þágu þess að færa þetta aftur í hið faglega ferli vegna þess að þeir virkjunarkostir sem hér er verið að fjalla um eiga klárlega að vera í nýtingarflokki samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Það eru öll rök sem hníga að því.