141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:07]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þegar tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða fær hér farsæla lokaafgreiðslu fagna ég þeim miklu tímamótum sem með því verða í umhverfismálum á Íslandi. Það er miður að hluti þingmanna hefur reynt að tala þessi merku tímamót niður með þeim einu rökum og af þeirri einu ástæðu að nokkur svæði fá um sinn að njóta vafans og verða skoðuð betur.

En mestu máli skiptir þó að hér verða þau gríðarlegu tímamót að fjölmörg svæði, verðmætar náttúruperlur sem áform hafa staðið til að virkja um ár og áratugi, eru núna flutt og fest í verndarflokk og þar með er því slegið í gadda að þannig verði það framvegis. Jökulsá á Fjöllum, Markarfljót, Þjórsá við Norðlingaölduveitu, Jökulfall í Árnessýslu, Brennisteinsfjöll, Gjástykki, Kerlingarfjallasvæðið og þannig mætti lengi telja. Í biðflokk fara mörg vatnsföll og háhitasvæði sem virkjunaraðilar hafa verið að rannsaka með virkjunaráform í huga. Það er líka mikill áfangasigur (Forseti hringir.) að þessi svæði komast nú í skjól og fá að njóta vafans. Ég óska umhverfisverndarsinnum og þjóðinni til hamingju með þessi tímamót.