141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:10]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er mjög mikilvægum áfanga náð í náttúruvernd og ég óska þjóðinni til hamingju með það. Vissulega hefði verið ánægjulegt að hafa fleiri um borð í þessari atkvæðagreiðslu en skoðun mín er sú að það er sama hvernig rammaáætlun hefði verið lögð fram, það hefði aldrei verið sátt um virkjunar- og verndarkosti vegna þess að það er óhugsandi fyrir suma þingmenn og suma stjórnmálaflokka að vernda náttúru Íslands svo nokkru nemi. Ég veit ekki hvers vegna það er svo en því miður er það þannig.

Sem betur fer er sú tíð er liðin að menn virki og eyðileggi náttúru Íslands bara til að skaffa vörubílum og gröfum atvinnu. Nú verður í framhaldinu virkjað af meiri varúð en áður og þau varúðarsjónarmið sem hér eru höfð að leiðarljósi munu leiða rammaáætlanir framtíðarinnar og það er gott. Ég fagna því að geta verið þátttakandi í því og ég skora á þá sem greitt hafa atkvæði gegn tillögunni í dag (Forseti hringir.) að endurskoða hug sinn til okkar fögru náttúru á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)