141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:14]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum komin að lokum þessa máls, að niðurstöðu um eitthvert merkilegasta mál á liðnu kjörtímabili.

Hér hafa einstakir þingmenn lagt áherslu á að skiptar skoðanir séu um einstaka kosti af þeim 67 kostum sem við höfum greitt atkvæði um og það er eðlilegt. Það gat aldrei orðið með öðrum hætti í máli eins og þessu. Stóra myndin er hins vegar sú að samkomulag er um meira en níu af hverjum tíu kostum sem undir eru í þessari áætlun. Niðurstaðan er því sú að við höfum með þessari afgreiðslu náð meiri árangri í að samræma sjónarmið um náttúruvernd og orkunýtingu í landinu en nokkur dæmi eru um í sögu þjóðarinnar. Það er sannarlega mikill áfangi og merkilegur árangur. Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega formanni umhverfis- og samgöngunefndar, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, og ekki síður talsmanni þessa máls, hv. þm. Merði Árnasyni, fyrir afar vasklega framgöngu í málinu, ekki einungis á kjörtímabilinu heldur á undanförnum árum. (Forseti hringir.)

Til hamingju með þetta mál, kæru þingmenn. Til hamingju með málið, kæru Íslendingar.