141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

framgangur ESB-viðræðna.

[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég man vel eftir tillögunni sem hv þingmaður flutti hér í júní 2009, en ég man líka vel þegar hann stóð í kosningabaráttu tveimur, þremur mánuðum áður og lét birta af sér heilsíðumyndir þar sem hann hvatti til þess að evran yrði tekin upp, að vísu einhliða. Það er alveg klárt hvað hv. þingmaður vildi og enginn maður í þessum sal hefur sannfært mig jafn vel með sterkum rökum um nauðsyn þess að taka upp evruna og hv. þingmaður og hv. þm. Illugi Gunnarsson sem skrifuðu glæsilegar greinar um verðleika evrunnar á sínum tíma. Þeim ber hrós fyrir.

Ég skal segja hv. þingmanni hvað mér finnst um hraðann. Mér finnst að það hafi almennt gengið mjög vel að opna þessa kafla og að skriðurinn á viðræðunum hafi verið góður. Á þessu eru tvær undantekningar og um þær hef ég margoft talað. Það er annars vegar landbúnaðarkaflinn sem er heimatilbúinn vandi og hins vegar er það sjávarútvegskaflinn. Það er ekki heimatilbúinn vandi, það eru tvenns konar orsakir sem rekja má beint til Evrópusambandsins. Ég er dapur yfir því. Ég er viss um að hv. þingmaður er líka dapur yfir því vegna þess að ef það hefði gengið betur værum við kannski að kjósa um það núna. (Forseti hringir.) Það kynnu hins vegar að vera mismunandi skoðanir á milli okkar tveggja um það hvort það væri æskilegt.