141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum.

[15:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Endranær þá er ég mjög sammála mörgu sem hv. þingmaður hefur sagt og gert á þingi og oft tekið undir með honum í ræðum. Ég er aftur á móti algjörlega ósammála þeirri tillögu hans sem hann hefur ásamt öðrum sett fram í hv. utanríkismálanefnd. Hins vegar tel ég, og það er alveg klárt ef hv. þingmaður les það sem kemur fram í samþykkt ríkisstjórnarinnar í morgun, að ekki sé verið að leggja neitt á ís. Það er ekki verið að fara með neinum hætti fram með formlegt hlé eða frest á málinu. Það sem verið er að gera er að ekki verður unnið frekar að þeim fjórum köflum sem á eftir að ljúka samningsafstöðum í, þ.e. um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál, staðfesturétt og fjárfestingar, fram yfir kosningar. Embættismenn Evrópusambandsins og samninganefnd Íslands munu að sjálfsögðu halda áfram að vinna aðra kafla sem eru með einhverjum hætti í gangi, þ.e. þá 16 kafla sem búið er að opna. Kaflana tvo, sem er búið að senda í formi samningsafstaðna frá Íslandi til Brussel og ESB hefur til vinnslu, mun ESB að sjálfsögðu halda áfram að þróa svör sín við.

Þetta felur í sér að ekki verður af okkar hálfu sóst eftir ríkjaráðstefnu í mars. Það tel ég líka fullkomlega eðlilegt, hún yrði alveg beint ofan í kosningar. Hvað hefði svo sem átt að gera á þeirri ríkjaráðstefnu? Við tókum kúfinn af þessu dæmi í desember þegar við opnuðum sex kafla. Það hefði jú verið hægt að opna einn kafla, kafla 24, um dóms- og innanríkismál, en það er enginn héraðsbrestur þó að hann bíði eitthvað fram á árið.