141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að vita að Íslendingar geti ráðið því hvenær ríkjaráðstefnur eru og hvenær ekki, ég leyfi mér alla vega að túlka orð ráðherrans með þeim hætti. Það hlýtur væntanlega einnig að þýða að við höfum eitthvað meira um það að segja hvernig haldið er á viðræðunum almennt ef við getum stjórnað því hvenær þessar svokölluðu ríkjaráðstefnur eru eða ekki.

Frú forseti. Ég verð að segja að mér er mjög létt. Ég er mjög glaður yfir því að sjá að hæstv. ráðherra er samkvæmur sjálfum sér að vanda. Ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ráðherranum væri eitthvað að fatast flugið í þessari umsókn, en það er gott að heyra að hann er samkvæmur sjálfum sér. Það er þá bara misskilningur hjá Vinstri grænum að eitthvað stórkostlegt sé nú að gerast, að verið sé að gera pásu á viðræðurnar eða leggja umsóknina tímabundið til hliðar. Eins og hæstv. ráðherra hefur svo sannarlega staðfest, og okkur grunaði auðvitað, er að enn og aftur er verið að kalla: Úlfur, úlfur, — eða hvernig sagan var hjá Vinstri grænum. Það er í rauninni engin breyting. Það er verið að halda áfram sama jukkinu, sama gutlinu, það er bara gert aðeins hægar en áður.