141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

innanlandsflug.

370. mál
[15:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni um hve mikilvægt það er að halda uppi flugsamgöngum við þá staði sem hann nefnir sérstaklega. Hann nefndi Bíldudal, Gjögur og Höfn í Hornafirði. Hann vék einnig að Sauðárkróksfluginu. Það mætti líka telja til Þórshöfn og Vopnafjörð sem eru í samningsbundnu flugi. Það er rétt að flugfélagið Ernir sinnir þessu flugi að verulegum hluta, það á við um Bíldudal, Gjögur og Höfn í Hornafirði, og síðan sinnir Norlandair fluginu til Norðausturlands, til Vopnafjarðar og Þórshafnar.

Það kom fram í fréttum í lok síðasta árs að flugfélagið Ernir átti við fjárhagserfiðleika að stríða. Ég vona svo sannarlega að þar úr muni rætast.

Af því að þeirri spurningu var beint til mín hvað mundi henda ef flugfélagið Ernir hætti öllu áætlunarflugi til minni áfgangastaða í landinu er því til að svara að þá yrði að bjóða flugleiðirnar út fyrr en til stóð. Við það kynni að verða breyting á þjónustunni, enda ljóst að hún takmarkast af því fé sem Alþingi ákveður til málaflokksins á fjárlögum. Falli flug niður fyrirvaralítið er hugsanlegt að grípa þurfi til tímabundinna ráðstafana til að tryggja lágmarksþjónustu. Væntanlega yrði það gert með samningi við Erni eða aðra flugrekendur á Íslandi og með þeim tækjakosti sem til staðar er. Nánari útfærsla færi eftir ýmsum ófyrirséðum aðstæðum. Eins og ég segi vonast ég til að fjárhagur Ernis sé að vænkast og að til þessa þurfi ekki að koma.

Hv. þingmaður beindi þeirri spurningu til mín hvort ég hygðist tryggja reglulegt áætlunarflug til umræddra áfangastaða. Ég hef ekki annað í hyggju, en eins og ljóst er mun þjónustan takmarkast af því fé sem er til ráðstöfunar. Eins og hv. þingmaður vék að var veitt eitthvert viðbótarfé til flugrekstursins sem var mjög mikilvægt á lokametrunum við afgreiðslu fjárlaga. Það stendur sem sagt til að reyna að standa vörð um flugið til þeirra staða sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega. Ég sé ekki fram á annað en að það muni takast.

Hv. þingmaður vék sérstaklega að Sauðárkróki og spurði hvað væri að gerast þar. Ég vonast til þess að flugvöllurinn á Sauðárkróki verði opnaður að nýju. Ég hef lagt áherslu á að svo verði. Aðilar hafa sýnt því áhuga að fljúga á Sauðárkrók og þá þarf flugvöllurinn að sjálfsögðu að vera opinn til þess.

Á síðasta ári voru veittar 10 millj. kr. til að styrkja flugið á Sauðárkróki. Það var ekki eyrnamerkt í fjárlögum sérstaklega, en það var sá skilningur við afgreiðslu fjárlaga að þessir fjármunir ættu að renna þangað. Þegar til kom reyndist þetta ekki nægilegt fjármagn til að Ernir, sem þá hafði flogið á Sauðárkrók, treysti sér til að halda uppi flugsamgöngum með því fjármagni. Ég lít svo á að við horfum til þessara peninga og könnum hvort og þá á hvaða forsendum flugrekstraraðilar treysti sér til að nýta það fjármagn til að halda uppi flugsamgöngum við Sauðárkrók. Þetta er allt í farvatninu þessa dagana.