141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

hlutverk ofanflóðasjóðs.

285. mál
[16:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég dreg þá ályktun af þeim að það muni í rauninni ekki miklu á grundvallarafstöðu minni og hæstv. ráðherra til sjóðsins. Ég tek undir með honum að hér á að vera um forvarnasjóð að ræða, það er ekki viturlegt að gera úr honum bótasjóð einnig þótt við þurfum hugsanlega á því að halda.

Ég vil hins vegar segja að ráðherrann tiltekur það að ekki eigi að byrja að endurskoða sjóðinn eða gera ráð fyrir öðrum verkefnum í honum fyrr en séð verði fyrir endann á þeim verkefnum sem nú standa yfir. En það er þegar hafið að tilhlutan ráðherra sjálfs. Eins og hann lýsti og ég líka í fyrri ræðu hefur verið veitt úr sjóðnum til eldgosarannsókna í að minnsta kosti þrjú ár og líklega heldur það áfram, ef ég les rétt úr hlutunum. Við veitum því ekki einungis fé úr sjóðnum vegna ofanflóða heldur líka vegna neðanflóða, eins og reynt var að segja brandara um í nefndarstarfinu. Ég tel að það sjái í raun þegar fyrir endann á þessum verkefnum og ég tel að það sé eðlilegt að lengja í þeirri teygju og framlengja tímabilið þegar menn tala um 2020. Brýnustu verkefnunum er lokið þó að menn séu enn í verkefnum sem skipta máli. Ég tel að gera eigi sjóðinn almennari í framtíðinni fyrir þá 10 milljarða sem í honum eru núna. Fyrir þá milljarða sem koma inn á hverju ári af skattfé almennings í landinu — það er þannig, þetta er ekki einhver himnaríkissjóður, þetta er skattfé almennings — eigi að miða við að líta víðar yfir og nota sjóðinn í forvarnir fyrir öllum tegundum af náttúruvá.