141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni og í litlu samræmi við það sem áður hefur verið sagt hér í ræðustól um þetta efni. Ég hef nokkrum sinnum spurt hæstv. utanríkisráðherra um nákvæmlega þetta, þ.e. hvenær umræða hefjist í erfiðustu málaflokkunum, í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, þar sem vitað er að ágreiningurinn er mestur. Fram eftir öllu síðasta ári voru svör hæstv. utanríkisráðherra alltaf á þann veg að auðvitað mundum við sýna á spilin fyrir kosningar. Það yrði kannski ekki búið að ljúka viðræðum í þeim málaflokkum en það yrði auðvitað búið að leggja fram samningsafstöðu þannig að menn vissu út frá hverju yrði gengið áður en kæmi til alþingiskosninga.

Þetta sagði hæstv. utanríkisráðherra tvisvar í umræðum um skýrslu um utanríkismál í fyrravor. Þegar ég spurði hann sérstaklega um þetta í maí eða júní í tilefni af ummælum eins af talsmönnum Evrópusambandsins, Stefans Füles, voru svör utanríkisráðherra líka skýr á þennan veg. Það gengur vel að undirbúa samningsafstöðu í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, sagði hann, og auðvitað verður hægt að sýna á þau spil löngu fyrir kosningar þannig að kjósendur viti hvað er í spilunum.

Nú er hins vegar komið hér og sagt: Auðvitað verður ekki hægt að sýna á spilin fyrir kosningar. Auðvitað verður að gefa kjósendum andrými.

Hvers konar málflutningur er þetta?

Tilefni þess að ég óskaði eftir að fá að taka hér til máls er að ég hef verið að reyna að rýna í yfirlýsingar bæði hv. samfylkingarmanna og hv. þingmanna Vinstri grænna, og ráðherra þessara flokka, eftir að ríkisstjórnin hélt sérstakan aukafund í gærmorgun til að taka afstöðu í þessum málum. Ég er að reyna að ráða í hvort þetta er mikilvæg yfirlýsing eða hvort þetta er yfirlýsing sem skiptir engu máli. Hvers konar yfirlýsing er þetta? Veldur þetta einhverjum straumhvörfum (Forseti hringir.) eða er þetta eitthvað sem skiptir bara engu máli? Það væri gott ef hv. þingmenn hjálpuðu okkur hinum að átta okkur á því hér í dag (Forseti hringir.) hvort þetta er raunveruleg yfirlýsing um eitthvað eða bara tal.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir á að ræðutíminn er tvær mínútur og biður hv. þingmenn um að virða hann.)