141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Já, það hefur verið nokkuð kúnstugt að fylgjast með þessu táknmálsstríði milli stjórnarflokkanna. Eftir stendur að sú leið sem við sjálfstæðismenn ráðlögðum þinginu og fórum fram á við það í upphafi, þ.e. leið þjóðaratkvæðagreiðslunnar strax í upphafi ferlis, hefði verið rétta leiðin og skorið margan manninn og konuna niður úr þeirri snöru sem ekki síst samfylkingarþingmenn eru í nú í dag. Eftir stendur að það er búið að slá þessu á frest og nú mun íslenska utanríkisþjónustan einblína á það að klára til dæmis fríverslunarsamning við Kína án þess að nokkurra spurninga sé spurt að ráði.

Það kemur ekki á óvart að þessi staða er núna uppi varðandi aðildarviðræðurnar. Vandræðagangur ríkisstjórnarinnar er búinn að vera með eindæmum og það er hlægilegt að heyra að það að kjósa Samfylkinguna í næstu kosningum sé ávísun á að menn geti haldið áfram með viðræðurnar. Samfylkingin lofaði fyrir þessar kosningar að klára viðræðurnar og hver trúir því að hún hafi burði eða metnað til þess? Hún mun fórna öllu á altari þess að halda í valdastólana.

Eins og ég gat um áðan kemur mér ekki á óvart að það verði hægt á ferlinu og ég tel það skynsamlegt. Ég tel það skynsamlegt í ljósi aðstæðna, í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið í Evrópu en ekki síst út frá vandræðagangi ríkisstjórnarinnar. Menn skilja að Vinstri grænir hafa reynt að umbera ákvörðun og aðkomu hv. þm. Jóns Bjarnasonar á sínum tíma í ríkisstjórn. Það er hins vegar verra að sjá hvernig þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa fylgt ferlinu eftir því að nú er málið að mínu mati komið að vissu leyti í ákveðið strand.

Þetta er ósköp einfalt, það verður nýrrar ríkisstjórnar að ákveða framhaldið. Þetta er annað lykilmála Samfylkingarinnar. Hitt lykilmálið kom fram áðan, stjórnarskráin. Ég tel farsælast að sama leiðin verði farin með stjórnarskrármálið og ESB-málið, það verði einfaldlega nýrrar ríkisstjórnar að ákveða breytingar á henni.