141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bregðast við orðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, um þá ákvörðun sem kynnt var í gær um ESB-ferlið. Það er einmitt ekki verið að slá neinu á frest. Það er verið að hægja á ferlinu sem þýðir á mannamáli að það er ekki verið að taka neinar nýjar ákvarðanir, t.d. um samningsafstöðu í nokkrum lykilköflum fram undan. Mér þykir það skynsamleg niðurstaða. Það tryggir að þetta ferli verður ekki sett á ís, það tryggir að þetta heldur áfram, öll vinna í þeim köflum sem hafa verið opnaðir, og það tryggir líka að það er veitt svigrúm fyrir þá ríkisstjórn sem verður mynduð að loknum kosningum til þess að hafa áhrif á samningsafstöðu í þeim mikilvægu málaflokkum.

Ég vildi hins vegar fara örfáum orðum um afar mikilvægt mál sem við ræddum á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í morgun og munum ræða áfram, þessi málaflokkur um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum í samfélaginu. Ég vil byrja á að þakka fjölmiðlum þessa lands, þakka dagskrárgerðarfólki í Kastljósi, RÚV og öðrum sem hafa komið í kjölfarið fyrir að vekja athygli á málum sem hafa verið rædd meira en nokkur önnur mál á undanförnum dögum. Þessi málaflokkur kallar á markviss viðbrögð stjórnvalda en jafnframt viðbrögð sem byggja á vönduðu mati á rannsóknum og virkni þeirra úrræða sem standa til boða.

Á fundinum í morgun komu upp hugmyndir um að veita lögreglunni auknar heimildir til að beita virkum tálbeitum gegn brotamönnum sem eru að reyna að tæla börn á netinu. Það var staðfest af ýmsum sem við okkur töluðu að athafnasvæði síbrotamanna í kynferðisbrotamálum gegn börnum og ungmennum er í dag fyrst og fremst netið. Það er afar mikilvægt að skoða vel hvort það eigi að veita lögreglunni auknar heimildir til að beita virkum tálbeitum á netinu í þessum tiltekna málaflokki. Það er mjög viðkvæmt að gera það yfir línuna en í þessum tiltekna málaflokki, kynferðisbrotum gegn börnum og ungmennum, tel ég rétt að við skoðum með opnum huga hvort (Forseti hringir.) lögreglan hafi heimild til þess að beita lögum yfir sérstaklega síbrotamenn sem fullvíst þykir að hafi brotið ítrekað gegn (Forseti hringir.) börnum í þessu skyni.