141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:20]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferð sína. Ég vil spyrja nokkurra spurninga.

Í fyrsta lagi: Gert er ráð fyrir umtalsverðum kostnaðarauka í tengslum við frumvarpið. Nánar tiltekið er gert ráð fyrir 100–110 millj. kr. á ári fyrir ríkissjóð og stofnanir hans. Gert er ráð fyrir kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum um 20–50 milljónir. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því neins staðar í framtíðaráætlunum varðandi útgjöld ríkissjóðs. Það er því eðlilegt að spyrja hvernig menn ætli að ná því.

Í öðru lagi talaði hæstv. ráðherra mikið um almannaréttinn. Miklar deilur hafa verið um þau mál, m.a. um hvítbókina og þá túlkun á almannaréttinum að það sé bundið við ákveðinn ferðamáta. Með þeirri skilgreiningu komum við í veg fyrir að menn geti keyrt þær hefðbundnu leiðir sem menn hafa farið um um áratugaskeið. Þær eru ástæðan fyrir því að flestir kunna nú að njóta hálendisins og svo sannarlega kemur það í veg fyrir að fatlaðir, börn og eldra fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar.

Maður finnur það þegar maður talar við þá sem eru m.a. í þessum frjálsu félagasamtökum að þeir telja sig ekki hafa fengið að koma að að málum við undirbúning frumvarpsins eða öðru í tengslum við það. Telur hæstv. ráðherra að frumvarpið verði samþykkt á þeim fáu dögum sem eftir eru af vorþingi?

Í þriðja lagi vildi ég heyra sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi kortagrunninn, sem mundi þýða grundvallarbreytingar á ferðalögum hér á landi. (Forseti hringir.) Það mundi þýða það að hér væri allt bannað sem ekki væri sérstaklega leyft. Það hljómar ekki vel.