141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Varðandi almannaréttinn geta menn ekki notað þá röksemd og sagt að það eigi bara við ákveðinn hóp fólks í landinu. Það er ekki almannaréttur. Ég vil vekja athygli manna á því að ástæðan fyrir því að við þekkjum hálendið jafn vel og raun ber vitni er líklega tvenns konar; annars vegar vegna virkjunarframkvæmda þar sem búnir hafa verið til slóðar og annað slíkt þannig að fólk kemst um hálendið, og hins vegar vegna bílanna. Nokkurn veginn frá því að bílar komu hingað til lands hafa menn farið um hálendið á þeim.

Það er beinlínis rangt að leggja málið þannig upp að bílaumferð á hálendinu fari gegn náttúruvernd. Við gætum ekki vitað um hvaða verðmæti er hér að ræða og við hefðum ekki getað notið þessara verðmæta og nýtt þau nema vegna þess að hér voru frumkvöðlar sem fóru um landið á bílum.

Ég vek líka athygli á því, virðulegi forseti, að meira að segja á þeim árstíma þegar ekki er hávetur hér eða vond færð eru veður mjög válynd og alls ekki hægt að ætlast til þess að hægt sé að fara um þessi svæði landsins með öðrum hætti en gert hefur verið undanfarna áratugi. Ég heyri það að mönnum finnst vera nóg komið af fordómum og þekkingarleysi á vélknúinni umferð um hálendið. Það er ekki góður upptaktur þegar menn vilja ná góðri sátt (Forseti hringir.) um þetta mikilvæga mál.