141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að ég náði ekki alveg að svara því sem varðar samráðið í fyrra svari mínu vil ég segja að í ljósi aðdraganda málsins hefur í raun átt sér stað mjög víðtækt samráð alveg frá upphafi gerðar hvítbókarinnar. Hér er því ekki um að ræða frumvarp sem kemur af himnum ofan heldur frumvarp sem verið hefur í mikilli samfélagslegri umræðu, m.a. þeirri sem hv. þingmaður hefur haldið ágætlega til haga bæði hér og annars staðar.

Það er gríðarlega mikilvægt sjónarmið sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. að þeir sem fara um á jeppum og vélknúnum ökutækjum eru gjarnan þeir sem þekkja landið best. Það er staðreynd og ég tek undir það. En ég tel líka mjög mikilvægt í því sambandi að halda því til haga að mjög mikill meiri hluti þeirra sem ferðast um á hálendinu á jeppum eru einlægir náttúruverndarsinnar sem vilja sýna náttúrunni mikinn sóma. Þess hef ég orðið áskynja sem betur fer í samskiptum mínum við jeppamenn að það er meiri hlutinn. Meiri hluti þeirra manna og kvenna vilja einmitt leggja áherslu á að það séu skýrar reglur um hvar má fara og hvar ekki, þar sé fyrir hendi það réttaröryggi sem góður og skýr kortagrunnur gefur okkur. Menn vilja vita hvað er heimilt, hvað ekki er heimilt, vita hvar náttúrunni stendur ógn af umferð og hvar það er ekki svo. Umhverfisnefndir jeppafélaga hafa meira að segja tekið verulegan þátt í náttúruvernd og halda náttúruvernd til haga með því að stika o.s.frv. Ég met það mjög mikils. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt í umræðunni að halda því til haga að þeir sem fara um landið með þessu móti eru fyrst og fremst liðsmenn okkar sem tölum um náttúruvernd en ekki andstæðingar þess.