141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[14:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi. Það hefur lengi legið fyrir að þess væri að vænta og tiltekin ákvæði hér inni hafa komið til umræðu í þinginu áður, eins og menn þekkja, einkum á síðasta þingi en raunar áður líka þar sem ætlunin var að taka afmörkuð atriði út úr náttúruverndarlögunum og afgreiða sérstaklega áður en heildarfrumvarpið kæmi. Ég játa alveg að ég var þeirrar skoðunar á fyrri stigum að það væri miklu skynsamlegra að taka þetta í samhengi og taldi þess vegna rök fyrir því að fresta afgreiðslu þeirra tilteknu atriða sem hér voru til umræðu síðasta vor þangað til við sæjum frumvarpið í heild sinni.

Þetta er viðamikið frumvarp og tekur á mörgum þáttum. Ýmsar breytingar felast í því og sýnist mér í fljótu bragði að sumar þeirra séu þess eðlis að unnt sé að taka undir þær en aðrar eru þannig að maður geldur nokkurn varhuga við þeim breytingum sem þar eru á ferðinni.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um frumvarpið en það er tvennt sem mér finnst ástæða til að fara yfir og tel tilefni fyrir umhverfis- og samgöngunefnd að meta sérstaklega þegar málið kemur inn til hennar. Annað er sú breyting á stofnanafyrirkomulagi sem hér er boðuð. Það er gert ráð fyrir töluverðum breytingum í þeim efnum og mér sýnist gert ráð fyrir umsvifameiri stjórnsýslu á þessum sviðum en verið hefur. Það er nauðsynlegt að meta það, annars vegar hvort þær breytingar eru nauðsynlegar og hins vegar hvort valið fyrirkomulag er með besta móti eins og frumvarpið er sett fram.

Í því sambandi velti ég meðal annars fyrir mér hlutverkum ýmissa nefnda sem hér eru nefndar. Hver er staða umdæmislandvarða? Ég held að það starfsheiti sé notað í textanum. Hvert á hlutverk þeirra að vera í þessu sambandi? Síðan velti ég fyrir mér hvort það aukna hlutverk sem Náttúrufræðistofnun á að fá leiðir til eðlisbreytingar á þeirri starfsemi sem þar fer fram, hvort með breytingum frumvarpsins sé gengið lengra í þá átt að gera Náttúrufræðistofnun að stjórnsýslustofnun frekar en rannsóknastofnun. Eftir því sem eftirlitsþátturinn fer vaxandi í starfi Náttúrufræðistofnunar hlýtur skörunin gagnvart Umhverfisstofnun að verða meiri. Mér finnst að það þurfi aðeins að fara yfir það hvort málum er þar komið fyrir með sem haganlegustum hætti.

Fyrir utan þennan stofnanastrúktúr sem ég held að við þurfum að skoða svolítið þurfum við líka að velta fyrir okkur efnisreglunum sem er í þessu að finna. Ég dreg ekki dul á það að ég hef áhyggjur af því að gengið sé býsna langt á sumum sviðum í þeim efnisbreytingum sem frumvarpið felur í sér. Ég byggi það að einhverju leyti á reynslunni eða á því sem fram hefur komið í umræðum um fyrri frumvörp um náttúruvernd sem hér voru til umræðu, m.a. á síðasta þingi. Þar er til dæmis verið að breyta viðmiðum þannig að það geti skert möguleika til framkvæmda, a.m.k. aukið þyngslin í stjórnsýslunni eða leyfisveitingum varðandi framkvæmdir meira en verið hefur. Það er verið að stækka þau svæði þar sem þarf að leita sérstakra leyfa til að fara í einhvers konar framkvæmdir og þess háttar.

Ég velti líka fyrir mér hvort allar þær reglur sem hér er að finna séu þess eðlis að það sé raunhæft að framfylgja þeim. Stundum eru settar reglur í frumvörp af þessu tagi sem fela í sér markmið sem eru út af fyrir sig jákvæð og æskileg en geta hins vegar verið býsna erfið í framkvæmd. Þá er spurning hvaða áhrif það hefur að hafa reglur í lögum sem er óraunhæft að framkvæma.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að fara í einstök ákvæði frumvarpsins. Ég vek hins vegar athygli á því að hér er um verulega viðamikið frumvarp að ræða, fjölda ákvæða og fjölda breytinga frá núgildandi lagafyrirkomulagi. Ég held að umhverfisnefnd eigi töluvert mikið verk fyrir höndum en tek hins vegar fram að ég mun sem nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd takast á við þetta verkefni með jákvæðum huga, þó þannig að ég held öllum fyrirvörum til að leggjast gegn einstökum ákvæðum eða útfærslum eftir því sem umfjöllun í nefndinni gefur tilefni til.

Við viljum öll að lagaramminn sé með þeim hætti að viðkvæm náttúra njóti verndar en það þarf að gæta hófs í því. Við verðum að hafa reglurnar þannig að nýting eigenda á eignarlandi geti verið eðlileg og að ekki séu búnir til of háir þröskuldar gagnvart því að fara í mikilvægar eða eðlilegar framkvæmdir. Þarna er um að ræða ákveðna jafnvægislist og ég vona að við náum nokkrum samhljómi á vettvangi umhverfis- og samgöngunefndar um það hvernig við finnum það jafnvægi. Það er að minnsta kosti ljóst að það verkefni sem við okkur blasir hér á næstu vikum í þessu frumvarpi er gríðarlega mikið og um leið mikilvægt.