141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að svara síðustu spurningu hv. þingmanns. Ég er þeirrar skoðunar að að þeim breytingum orðnum sem hv. þingmaður reifaði mundi það krefjast talsverðs fullveldisframsals umfram það sem menn töldu til dæmis í upphafi umsóknarferilsins. Um þetta höfum við rætt en það yrði þá eitt af því sem þjóðin vissi af og mundi taka afstöðu til þegar hún greiddi atkvæði um samninginn. Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir að opna þetta mál hér, það er alltaf gaman að eiga orðastað við hv. þm. Bjarna Benediktsson, ekki síst um Evrópumálin. Ég á honum reyndar skuld að gjalda í þeim efnum. Það má segja að það hafi verið hann sem hafi vætt mig þeim rökum sem gerðu mig að þeim fjallgrimma og fjallvissa evrusinna sem ég er í dag, ég er algjörlega sannfærður um það að evran er framtíðargjaldmiðill fyrir Ísland.

Ég rifjaði upp gömul orðaskipti okkar hér í gær. Þetta var á þeim dögum fyrir kosningarnar 2009 þegar formaður Sjálfstæðisflokksins taldi sér og sínum flokki helst til framdráttar að birta heilsíðuauglýsingar af sér þar sem hann lýsti því yfir að evran væri gjaldmiðill framtíðarinnar á Íslandi. Það gerði hv. þingmaður svo sannfærandi að ég mundi glaður í dag, ef ég ætti þess kost, skipa hann fyrsta kommissar Íslands í Brussel. En það eimdi eftir af þessum gamla góða Bjarna þegar við sátum hér saman líka á sumarþinginu eftir kosningarnar og ræddum yfir þetta púlt Evrópusambandið og þau mál sem því tengdust. Þá vorum við sammála um að það væri æskilegt, ef hægt væri, að komast hjá því að gera aðildarferlið og umsóknina að pólitísku bitbeini. Það ræddum við margoft hér og það er akkúrat þetta sem ríkisstjórnin var með í huga þegar hún tók þá ákvörðun sem hún tók í gær um að hægja á ferlinu í aðdraganda kosninganna. Ákvörðunin er að koma ferlinu í var og ég dreg enga dul á að ég ber mikla umhyggju fyrir málinu. Ég tel mikilvægt að það séu ekki deilur um samningaferlið í miðri kosningabaráttu og ekki síst í því ljósi teldi ég sérstaklega óheppilegt og óskynsamlegt að setja alþingismenn í þá stöðu að móta í miðri kosningabaráttu samningsafstöðu í þeim málum sem hugsanlega eru pólitískt erfiðust.

Hv. þingmaður spyr mig hvað felist í ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í fyrsta lagi verður ekki unnið meira að samningsafstöðu í landi og sjó og tveimur tengdum köflum á næstu ríflega þremur mánuðum. Þá hefst sú vinna aftur samkvæmt þessari ályktun vegna þess að hún nær til loka kjörtímabilsins.

Þessi ákvörðun seinkar að öllu óbreyttu vinnu við fjóra kafla um röska þrjá mánuði.

Í öðru lagi heldur vinnan áfram við þá 16 kafla sem eru opnir. ESB heldur áfram að móta svör við öðrum tveimur þar sem Ísland hefur lagt fram sína samningsafstöðu en kaflar ekki verið opnaðir. Það þýðir í reynd að samkvæmt þessari ákvörðun er áfram unnið að 18 köflum af þeim 22 sem eru eftir.

Í þriðja lagi leggur Ísland áherslu á að ríkjaráðstefnan fari ekki fram rétt ofan í kosningar.

Í þessari ákvörðun felst hvorki formlegt hlé né formleg frestun á málinu. Í henni felst það eitt að það er hægt á ferlinu tímabundið. Nokkrar ástæður, sem ég hef sumar rakið hér í dag og í gær, eru fyrir því að ég tel þessa nálgun fram að kosningum bæði skynsamlega og farsæla fyrir ferlið í heild.

Í fyrsta lagi, eins og ég hef sagt, er það stutt til kosninga að ég tel eðlilegt að við séum ekki að láta þingið takast á um erfiðustu samningsafstöðurnar rétt ofan í kosningarnar. Ég hef einfaldlega ekki unnið þannig og tel að það væri óábyrgt af minni hálfu.

Í öðru lagi er von mín að aðildarferlið verði ekki að pólitísku bitbeini í kosningabaráttunni, bæði hagsmunir Íslendinga og ferlið sjálft eiga betra skilið.

Í þriðja lagi, og það skiptir ekki sístu máli, tel ég að það sé í anda lýðræðis að ný ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum, hver sem hún verður, fái að setja sitt mark á afstöðu Íslands í grundvallarmálaflokkum á borð við landbúnað og sjávarútveg.

Í fjórða lagi má kannski segja að með þessu sé líka komið til móts við kröfur þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem hafa kvartað yfir því að þeir fái ekki nægilegt ráðrúm og tóm til þess að ræða verk ríkisstjórnarinnar og efnahagsmál.

Það sem mestu skiptir í þessu ferli er að við erum farin að sjá til lands og einungis lokaáfanginn er eftir. Við eigum bara eftir að ljúka samningsafstöðu í fjórum köflum. Við erum búin að ljúka samningum í 11 og við höfum opnað 27 kafla. Þetta er staðan þremur og hálfu ári eftir að við sóttum um aðild að ESB og ég vil leyfa mér að segja að hún er góð (Forseti hringir.) þó að vissulega sé hún margslungin eins og gerist alltaf í erfiðum samningum.