141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég þakka umræðuna. Ég er með nokkrar spurningar til hæstv. utanríkisráðherra.

Hæstv. ráðherra hefur orðið tíðrætt um að hann fylgi einatt vilja þingsins. Því langar mig að spyrja: Hvar er samráðið við þingið um ákvarðanatökurnar? Ég óska jafnframt eftir að fá stöðufund eða jafnvel upplýsingar um fríverslunarsamning Íslands við Kína, ef hæstv. ráðherra vildi vera svo góður.

Við í utanríkismálanefnd höfum ekki fengið neinar almennilegar upplýsingar um stöðuna, en mikið er rætt um það í samfélaginu að lagður hafi verið mikill kraftur undanfarið í þær viðræður og þætti mér og efalaust öðrum þingmönnum mjög gagnlegt að fá að vita nákvæmlega hver staðan er í því máli. Jafnframt óska ég eftir því að utanríkismálanefnd fái að sjá samninginn.

Í ljósi umræðunnar um evruna langar mig að spyrja hæstv. ráðherrann um sýn hans á hversu fljótt við getum tekið upp evruna á miðað við að ákveðið hefur verið að hægja á ferlinu án nokkurs samráðs við Alþingi sem þó greiddi atkvæði um að fara í það ferli. Ég bið hæstv. ráðherra um að svara undanbragðalaust.