141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér sýnist að ákvörðun ríkisstjórnarinnar þýði í sjálfu sér ekki mjög mikið. Það stóð í raun og veru aldrei til, sýnist mér, að opna nýja kafla fyrir kosningar, þeir kaflar voru ekki tilbúnir, og það stendur til að halda áfram viðræðum í þeim 16 köflum sem þegar er búið að opna. Hvað er í gangi? Mér sýnist þetta aðallega vera sjónarspil, leikþáttur.

Ég verð að segja sem stuðningsmaður aðildarviðræðnanna og vegna þess að ég er fremur jákvæður í garð þess að ganga inn í Evrópusambandið að gefnum góðum samningi, að ég er orðinn ansi þreyttur á öllum þessum leikþáttum í kringum þetta mikilvæga ferli. (REÁ: Heyr, heyr.) Hvað er í húfi? Ef vel er haldið á spöðunum snýst aðildin að Evrópusambandinu um lífskjör í þessu landi, um verðlag, um vaxtastig, hún snýst um sjálfan grundvöll efnahagslífsins. Aðildin að Evrópusambandinu snýst um fjölbreytni í atvinnulífi, aukningu í útflutningi, opinn markað, afnám gjaldeyrishafta, frelsi einstaklinga og aukin tækifæri þeirra. Hún snýst um stöðu okkar í samfélagi þjóðanna. Hvaða vini eigum við? Það var spurning sem blasti við okkur eftir efnahagshrunið. Hún snýst um lýðræði og sjálfstæði og þá spurningu hvort sjálfstæði þjóðarinnar sé betur borgið innan ESB, þar sem við erum þátttakendur í ákvörðunum, eða innan EES þar sem við erum ekki þátttakendur í ákvörðunum, bara þiggjendur að löggjöf.

Allar þessar ógnarstóru spurningar blasa við. Þess vegna erum við í þessu ferli. Ég tilheyri allstórum hluta þjóðarinnar sem vill taka upplýsta ákvörðun um málið. Þá verður stærsta breytan að liggja fyrir, þ.e. samningurinn, hann felur í sér allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu til þessa stóra máls.

Ég velti fyrir mér: Er pólitísku menningunni sem ríkir á Alþingi það um megn að leiða ferlið til lykta? Eða þarf mögulega nýja (Forseti hringir.) pólitíska leiðsögn í þessu máli?