141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að þetta mál er allt eitt sjónarspil. Hæstv. forsætisráðherra segir í fréttunum í hádeginu að tillaga okkar, þáverandi meiri hluta í utanríkismálanefnd, þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og hv. þm. Jóns Bjarnasonar, hefði fellt ríkisstjórnina og að VG hefðu verið beittir þrýstingi, sá þrýstingur hafi verið á VG að þeir tryggðu að slík tillaga fengi ekki framgang. Mér þykja þetta mjög athyglisverð ummæli. Þarna segir hæstv. forsætisráðherra að þetta hafi einungis snúist um líf ríkisstjórnarinnar, sem við vissum reyndar mörg hver, og eina ferðina enn lætur VG undan, tekur hagsmuni ríkisstjórnarinnar fram yfir hagsmuni íslensku þjóðarinnar.

Hvar er öll lýðræðisástin? Gleymum því ekki hvað tillaga okkar snerist um. Hún snerist um að hlé yrði gert á viðræðunum, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur nú fallist á að sé skynsamlegt, og að leyfa þjóðinni að taka um það ákvörðun hvort haldið skyldi áfram á þessari braut eða ekki. Er ríkisstjórnin svona ofboðslega hrædd við þjóðina að hún þorir ekki að leyfa henni að taka þá ákvörðun og hafa skoðun á því? Hæstv. innanríkisráðherra sagði að það væri liður í því að koma málinu til þjóðarinnar. Ég skil ekki hvernig hann getur nálgast það þannig. (Gripið fram í.)

Ég endurtek að ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, þetta er sjónarspil. Þetta snýst um líf ríkisstjórnarinnar og hefur ekkert með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að gera. Þjóðin áttar sig á því að þetta er ekki sú braut sem hún vill fara inn á. Þjóðin áttar sig á því að evran er ekki sú töfralausn sem hæstv. utanríkisráðherra boðar. Mér finnst það ríkisstjórninni til vansa og hreint og beint til skammar að leyfa ekki þjóðinni að ákveða hvort haldið skuli áfram á þessari braut. Ég tel ekki útséð (Forseti hringir.) um að slík tillaga komi fram, jafnvel þótt við höfum ekki lengur meiri hluta í nefndinni. (Forseti hringir.) Það er alla vega ljóst að ríkisstjórnin mun gera eitt og annað til þess að koma í veg fyrir að svo verði.