141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:24]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Aðildarviðræðum við Evrópusambandið verður haldið áfram. Hægt verður á gangi þeirra, en það er liður í málamiðlun á milli stjórnarflokkanna. Það er mikilvægt að þeirri staðreynd sé haldið til haga í umræðunni.

Við stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu vil ég segja þetta: Besta leiðin til að halda áfram aðildarviðræðum, besta leiðin til að þjóðin geti í fyllingu tímans tekið upplýsta ákvörðun um að ganga í Evrópusambandið eða ekki er að hægja á ferlinu í aðdraganda kosninga. Það er skynsamleg leið að svo komnu máli. Það er svo nýrrar ríkisstjórnar að taka um það ákvörðun hvort hún vill halda því ferli áfram eða ekki.

Verður aðildarviðræðum haldið áfram svo þjóðin geti tekið upplýsta ákvörðun, sem byggð er á samningi, um að ganga í Evrópusambandið eða ekki? Það verður ný ríkisstjórn að taka ákvörðun um. Ég segi það, virðulegi forseti.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að Samfylkingin verði forustuafl í nýrri ríkisstjórn til þess að þjóðin geti á næsta kjörtímabili tekið upplýsta ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu. Að öðrum kosti getum við ekki krafið þjóðina um svar við þeirri spurningu hvort aðild að Evrópusambandinu sé fýsileg eða ekki. Þjóðin verður að hafa samninginn fyrir framan sig til þess að átta sig á því hvernig fer um myntina, hvernig fer um fiskveiðiauðlindina, hvernig fer um byggðamál o.s.frv. Þá fyrst getum við krafið þjóðina um ákvörðun. Þess vegna er mikilvægt að Samfylkingin verði forustuafl í myndun nýrrar ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili svo aðildarviðræðum verði haldið áfram.

Þess vegna verða stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu að skilja að að svo komnu máli er það hyggilegasta leiðin núna að hægja á ferlinu til þess að við getum haldið aðildarviðræðum áfram á nýju kjörtímabili undir forustu okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni.