141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem er að mörgu leyti mjög upplýsandi. Mér þykir þó leitt að heyra að fulltrúar Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hafa gefist upp á Íslandi. Hér eru taldir upp í runum þættir sem eiga að vera í landinu helga hinum megin við hafið, í landinu í austri þar sem Evrópusambandið er; allt á að vera bjart og gott. Á sama tíma berast fréttir af því að Þjóðverjar horfa nú á minnsta hagvöxt sem þeir hafa nokkurn tímann augum litið og allir vita að það eru áratugir í að Ísland geti tekið upp evru, ef hún er draumamyntin þeirra sem hér tala.

Það var svolítið merkilegt sem fram kom áðan, ég man ekki til þess að það hafi áður komið fram hér. Hæstv. innanríkisráðherra upplýsti okkur um að Samfylkingin hafi neitað að spyrja þjóðina í upphafi ferlisins. Þegar Vinstri grænir komu að máli við Samfylkinguna um myndun ríkisstjórnar neitaði Samfylkingin því að leyfa þjóðinni að taka ákvörðun um það. Það er lýðræðisástin í þeim guðsvolaða flokki, svo ég segi það nú bara.

Frú forseti. Koma málinu til þjóðarinnar, sagði hæstv. innanríkisráðherra. Nú er hæstv. innanríkisráðherra og flokkur hans búinn að hafa mörg ár í þessari ríkisstjórn til að koma málinu til þjóðarinnar. Hvernig hefur það gengið? Er þetta ekki enn ein ræðan frá Vinstri grænum, og þá tala ég um alla þingmenn Vinstri grænna, sem er eins og í ævintýrinu „Úlfur, úlfur“? Hér er kallað úlfur, úlfur hvað eftir annað úr þessum ræðustól og annars staðar úr samfélaginu, en það gerist bara ekki neitt því að það er ráðherrastóllinn, sæti í ríkisstjórninni, sem skiptir öllu máli hjá þessum flokki, það er einfaldlega þannig.

En fyrst við tölum um samkomulagið eða hvað það á að heita sem hér er lagt fram, er það einn mesti brandari sem sagður hefur verið þjóðinni. Það er nákvæmlega ekkert í þessu, eins og komið hefur fram. Þar er ég sammála hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, þetta er bara sjónarspil, þetta er blekking. En hverja er verið að blekkja? Væntanlega þá sem eru stressaðir innan Vinstri grænna yfir því hvað flokkurinn ætlar að gera í næstu kosningum. Það sem hafðist hins vegar var að fjöldinn allur af samfylkingarfólki er æfur yfir því að þessi leið skyldi vera farin, þeir telja að verið sé að gefa eftir.

Það kom ágætlega fram áðan hjá síðasta ræðumanni, (Forseti hringir.) hv. þm. Magnúsi Orra Schram, að búið er að koma ferlinu í var, þökk sé Vinstri grænum. Búið er að verja ferlið. Búið er að bjarga því í hús. Það verður ekki lengur (Forseti hringir.) úti í kuldanum.