141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:28]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að öllum hafi orðið það ljóst þegar leið á síðasta ár að ekki mundi standa þannig á að við lönduðum samningi að efnislegri niðurstöðu til að bera undir þjóðina og kjósa um, eins og áform stóðu til vorið 2009. Þar af leiðandi var það bæði rétt og skylt að staldra við og meta stöðuna í málinu, eins og við Vinstri græn ákváðum að gera, til að mynda á okkar flokksráðsfundi á Hólum síðsumars. Það höfum við nú síðan gert og í góðu samstarfi við stjórnarflokkanna hefur orðið niðurstaða um að búa um málið með tilteknum hætti eins og lýst hefur verið. Ég tel að það sé bæði ábyrgt og skynsamlegt. Það ætti að vera niðurstaða sem flestir gætu unað ágætlega við, að málið yrði í þessum umbúnaði fram yfir kosningar í vor, því að hvað sem deildum meiningum líður, hvort heldur sem er um málsmeðferð eða efni málsins sjálfs, hljóta allir að viðurkenna að þetta er stórt mál. Það varðar landið miklu og það þarf að halda á því af ábyrgð og yfirvegun. Það tel ég að ríkisstjórnin sé að gera með þessum hætti.

Ég vænti því þess, frú forseti, að andinn í umræðunni hafi verið jákvæður og menn hafi verið ánægðir með að nú hefur þetta verið gert. Það er svo í höndum hvers flokks um sig, hvort sem hann er í ríkisstjórn nú eða í stjórnarandstöðu, að kveða upp úr um það hvernig hann sér fyrir sér framhald málsins. Ég tel að það tryggi að hægt verði að eiga málefnalega og uppbyggilega rökræðu um þetta mál eins og önnur í alþingiskosningunum sem í hönd fara. Það hljóta allir að hafa áhuga á því að svo verði. Málið yfirgefur okkur ekki. Tengsl Íslands og Evrópusambandsins og Evrópu í heild sinni eru eitt af hinum stóru utanríkispólitísku málum Íslands sem þarf að nálgast af yfirvegun og ábyrgð og reyna að forðast að hafa umræður um þau á ný í skotgröfum (Forseti hringir.) eða með ódýrri upphlaupspólitík.