141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:31]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Sumarið 2009 ályktaði Alþingi að við skyldum sækja um aðild að ESB og ríkisstjórnin ganga til samninga. Það held ég að sé það umboð sem við hér inni, a.m.k. sum okkar, reyndar ekki ég, gáfum ríkisstjórninni til að sækja um. Ég hef oft velt fyrir mér hvernig þessu er farið, vegna þess að einstakir ráðherrar virðast í gegnum þetta ferli hafa getað gert það sem þeim sýndist og virt þessa ályktun í raun að vettugi. Þess vegna er það kannski svekkjandi fyrir okkur öll, ekki bara þá sem vilja fara inn, heldur líka fólk eins og mig sem vill bara fá niðurstöðu í þetta mál, að við séum ekki komin lengra í þessu ferli. Ég held að það sé vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki verið samstiga í því að fylgja eftir ályktun Alþingis, heldur hafa sumir ráðherrar stundum verið að gera eitthvað allt annað.

Ég velti líka fyrir mér hvaða umboð ríkisstjórnin hefur til þess að hægja á ferðinni — hvað sem það nú þýðir. Ef til vill er þetta eitthvert sjónarspil, kannski er ekkert verið að hægja á ferðinni, kannski er bara ekki hægt að opna þessa kafla. Ég veit það ekki, en þegar Alþingi ályktar um eitthvað á það að hafa merkingu. Fyrst Alþingi hefur ekki ályktað um neitt annað hlýtur ríkisstjórnin að eiga að framfylgja ályktun Alþingis.