141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[15:45]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka ágæta umræðu um það frumvarp sem hér er lagt fram til meðferðar þingsins, frumvarp til laga um náttúruvernd. Það er heildarendurskoðun náttúruverndarlaga. Um er að ræða nýja nálgun, bæði að því er varðar vinnubrögð, samráðsferla og verklag í því hvernig endurskoðun laga er háttað með hvítbókaraðferðinni sem er aðferð sem ég tel að yfirfæra ætti á fleiri málaflokka, þ.e. að gefa sér tíma til að gera ítarlega úttekt á lagaumhverfinu og því regluverki sem umlykur viðkomandi málaflokk. Það er nálgunin sem við notuðum hér. Um er að ræða opna og mjög langa umræðu um málaflokkinn og þau álitamál sem hann býr yfir. Það felur líka í sér að álitamálin hafa komið upp á yfirborðið í gegnum ferlið sem slíkt, þau hafa verið rædd og sum þeirra hafa þegar verið leidd til lykta og sniðnir agnúar af frumvarpinu í þágu þess að unnt verði að komast að sameiginlegri niðurstöðu um afgreiðslu málsins.

Eins og komið hefur fram í umræðunni eru hér mikilvæg mál undir. Hér hafa verið nefnd málefni sem varða almannaréttinn og umferð um landið. Umræðan sem snýr að vistkerfisnálguninni og grundvellinum sem fólginn er í samningnum um líffræðilega fjölbreytni er mikilvæg því að hún er í anda þeirrar heildarsýnar sem sjálfbær þróun gerir ráð fyrir í öllum málum. Hér nálgumst við ferli friðlýsinga og framkvæmd og umsýslu og utanumhald náttúruverndar á algjörlega nýjan hátt í því skyni að ná betur utan um málið, til að ná betur verndarhagsmunum og meiri sátt við hagsmunaaðila, landeigendur og sveitarfélög. Er það gert á grundvelli núverandi löggjafar til þess að ná þeim mikilsverðu verndarmarkmiðum sem frumvarpið fjallar um.

Loks er hér gert ráð fyrir því að leiða í lög meginreglur umhverfisréttarins, þ.e. þær reglur sem verið hafa undirstaða þeirra meginbreytinga sem orðið hafa í umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf landanna í kringum okkur og í umhverfis- og náttúruverndarumræðunni á heimsvísu, sem felur m.a. í sér varúðarregluna, þá reglu að náttúran njóti vafans. Þá er það oft viðfangsefni okkar að láta hana gera það þar til vafanum hefur verið eytt og upplýsingar hafa verið leiddar í ljós til þess að fræðilegur og faglegur grundvöllur ákvarðana liggi fyrir á hverjum tíma. Það eru allt saman mikilvæg sjónarmið.

Ég vænti þess, virðulegur forseti, að hv. umhverfis- og samgöngunefnd taki málið til meðferðar og að það gangi vel. Ég heyri það á umræðunni í þingsal að menn taka frumvarpinu með jákvæðum og opnum huga. Ég hef væntingar til þess að við getum á þessu síðasta þingi kjörtímabilsins borið gæfu til þess að leiða í lög nýja náttúruverndarlöggjöf, náttúru Íslands og þjóðinni til heilla.